146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

almenn hegningarlög.

101. mál
[15:33]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Frú forseti. Mig langar í lokin á 1. umr. um þetta þingmál, sem snýst um það að fella 95. gr. út úr almennum hegningarlögum, að þakka þeim hv. þingmönnum sem tekið hafa þátt í umræðunni. Ég heyrði ekki betur en að allir þeir sem tóku til máls, hvort sem var í ræðum eða andsvörum, hafi alla vega ekki verið mótfallnir frumvarpinu eða lýstu jafnvel yfir stuðningi við málið. Mér finnst það góðs vísir og lofa góðu um framhald þessa máls á Alþingi og ætla að leyfa mér að vera bjartsýn fyrir hönd þess nú þegar það gengur til þingnefndar.

Mig langar að þakka fyrir hvað umræðan hefur verið á málefnalegum en á sama tíma fjölbreyttum nótum, því að hér hefur verið rætt um praktískt mikilvægi þess að þetta ákvæði verði fellt úr lögum til þess að fólk í valdastöðum, þjóðarleiðtogar, hafi ekki ríkari lagavernd en almenningur. Mér finnst það mikilvægt.

Svo hafa hv. þingmenn líka leyft sér að vera á heimspekilegum nótum og velt upp ýmsum hliðum á þessu máli. Ég held að það skipti máli vegna þess að hér hafa komið góðar ábendingar, til að mynda frá hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, um ýmis ákvæði í lögum sem lúta að tjáningarfrelsi fólks sem skoða þarf heildstætt og miklu heildstæðara en gert er í þessu litla lagafrumvarpi.

Ég held að umræðan hér sé mikilvægt innlegg í enn þá stærri umræðu og góður upptaktur að því að fara í meiri umræður. Ég tel að það sé svo mikilvægt og rétt sem til að mynda hv. þm. Andrés Ingi Jónsson benti á í ræðu sinni þar sem hann taldi upp ýmis „smámál“ sem felld hefðu verið út úr stærri lögum, sem skiptir auðvitað líka rosalega miklu máli.

Ég vona svo sannarlega að með þessu frumvarpi, sem er stutt, alla vega í orðum talið, takist okkur að hreinsa út úr lagasafninu lagaákvæði sem eru algjörlega óþörf og alls ekki í takt við tímann, og að við getum einnig veitt umræðunni um tjáningarfrelsið og lýðræðið brautargengi og minnt á að því fylgir ábyrgð að vera þátttakandi í upplýstri umræðu í lýðræðissamfélagi.