146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

fyrirtækjaskrá.

116. mál
[16:19]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Jú, vissulega mundi ríkisskattstjóri verða af tekjum. En af því að við erum að hugsa um hag þjóðarinnar í þessum sal en ekki hag einstakra stofnana ríkisins getum við líka sett dæmið upp þannig að þau fyrirtæki sem greiða ríkisskattstjóra fyrir beinan aðgang að fyrirtækjaskrá í dag spari þann pening. Þau þyrftu að vera með einhverja nýsköpun í vöruþróun sinni til að geta haldið áfram að selja þjónustu sína. Ég treysti þeim vel til þess.

Að sama skapi mundi sparast peningur úti í samfélaginu hjá þeim sem sækja sér þjónustu hjá þessum fyrirtækjum sem hægt væri að sækja beint til ríkisskattstjóra. Frekar en að borga fyrir aðgang að hráum upplýsingum úr fyrirtækjaskrá fær viðkomandi það ókeypis upp í hendur frá ríkisskattstjóra, þannig að samfélagslega nettótalan held ég verði alltaf jákvæð. Þó svo að ein ríkisstofnun missi sértekjur upp á einhverja smáaura í stóra samhenginu held ég að heildarmarkmiðið og það sem kæmi út úr því væri svo miklu meira virði. Það væri fórnarkostnaður sem ég held að við ættum öll að geta þolað ríkinu að bera.