146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

fæðingar- og foreldraorlof.

110. mál
[16:57]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir að flytja þetta góða mál, frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Það er nú líklega flutt í þriðja sinn.

Það er af sem áður var að börn á Íslandi fæddust hringinn í kringum landið á sjúkrahúsum sem þá hétu. Nú eru þessir staðir orðnir færri og líklega eru það fyrst og fremst tveir staðir, Landspítalinn að sjálfsögðu og Sjúkrahúsið á Akureyri, sem hafa skilgreint hlutverk í þessu tilviki, sem geta tekið á móti börnum og tekið á móti mæðrum sem eignast börn sín þar þó að um áhættufæðingar sé að ræða. Að auki er Akranes eini staðurinn með fullan viðbúnað til þess að gera bráðakeisara enn sem komið er. En það er alveg víst að unnið er að því ljóst og leynt að fækka þeim stöðum þar sem fæðingar eiga sér stað með svo öruggum viðbúnaði, eins mikið og hægt er. Einhver álitamál eru um hvað þessir staðir eigi að vera margir, en togið snýst fyrst og fremst um Landspítala.

Hvers vegna gerist þetta? Það eru auðvitað ýmsar ástæður. Fagfólk er af skornum skammti úti um landið og fjárframlög eru klippt niður.

Síðan viljum við auðvitað öll að börn okkar fæðist við sem öruggastar aðstæður og að áhættan sé sem minnst og að allt gangi vel. Auðvitað er það svo í langflestum tilvikum, sem betur fer, enda höfum við Íslendingar náð afar góðum árangri á þessu sviði og hvað bestum árangri á veraldarvísu.

Sú tillaga sem hér um ræðir, breytingin sem um er að ræða, finnst mér vera hófsamleg og í henni er vottur af jafnréttishugsun gagnvart þeim sem búa á landsbyggðinni. Það er gríðarlega mikið rask og óþægindi fyrir fólk að þurfa að taka sig upp, kannski með löngum fyrirvara frá fleiri börnum eða allri fjölskyldunni og flytja um langan veg. Það er alveg undir hælinn lagt hvort þær fæðingarstofnanir sem enn eru eftir, Landspítali og Sjúkrahúsið á Akureyri, geti greitt götu foreldra með því að útvega þeim húsnæði á meðan á dvöl stendur. Það tekst alls ekki alltaf. Ég veit að á Akranesi er gert ráð fyrir því að verðandi mæður geti dvalið í húsnæði stofnunarinnar fyrir fæðingu. Komið hefur í ljós að það er bráðnauðsynlegur þáttur í starfseminni einmitt vegna þeirra sem koma lengra að.

Ég vona að þessari tillögu vegni vel í meðförum nefndar og að það verði heldur léttbærara fyrir foreldra sem þurfa að taka á sig þetta óþægindaálag. Það er ekki útlit fyrir að það verði þannig á ný að börn fæðist allan hringinn í kringum landið, því miður. Það er hægt, en það þarf mikið til.