152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

afgreiðsla ríkisborgararéttar.

[10:38]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Forseti. Ég kem hér upp til að taka undir þetta, þetta mál er miklu stærra en afgreiðsla umsókna um ríkisborgararétt. Hér er bara um þrískiptingu valdsins að ræða. Meðferð þessa máls hefur verið með öllum ólíkindum og ég held að það sé alveg ljóst að forseti og við sem hér sitjum þurfum að leysa úr þessu. Þetta eru óboðleg vinnubrögð. Það er ekki ráðuneytis eða stofnunar að skipa þingnefnd einhliða fyrir um breytt verklag. Þannig gengur það ekki fyrir sig. Stofnuninni ber að veita okkur ákveðin gögn innan ákveðins frests samkvæmt lögum og það ber að virða. Annað mál er svo hvort þessi tilhögun sé rétt og hvort við þurfum að breyta henni. En svona ganga málin einfaldlega ekki fyrir sig.