152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

orkumál og stofnun þjóðgarðs.

[11:05]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra. Loftslags- og umhverfismál fá töluvert pláss í stjórnarsáttmálanum, eðlilega, og það eru tvö atriði þar sem mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra út í og biðja að útskýra nánar. Hér segir í kafla sem ber yfirskriftina Við ætlum að setja loftslagsmálin í forgang: „Ríkisstjórnin mun ekki gefa út nein leyfi til olíuleitar í efnahagslögsögu Íslands.“ Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort þarna sé eingöngu verið að loka fyrir útgáfu leyfa til olíuleitar eða hvort jarðgas falli þarna undir sömuleiðis. Kemur til greina, óski aðilar eftir leyfi til að leita að jarðgasi, að gefa út slíkt leyfi? Þetta er fyrri spurningin.

Seinni spurningin er um það sem segir í stjórnarsáttmálanum, með leyfi forseta: „Stofnaður verður þjóðgarður á þegar friðlýstum svæðum og jöklum í þjóðlendum á hálendinu með breytingu á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð.“ Það sem ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra út í er „á þegar friðlýstum svæðum“. Þýðir það að öll friðlýst svæði falli þar undir og verði þá hluti af þessum nýja þjóðgarði eða hvort friðlýst svæði komi eingöngu til greina innan þess þjóðgarðar sem ætlunin er að stofna með útvíkkun laga um Vatnajökulsþjóðgarð?