152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

sóttvarnir og takmarkanir á daglegt líf í bólusettu samfélagi.

[11:46]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu. Hún er vel tímasett. Upptakan af ræðu hæstv. heilbrigðisráðherra var ekki orðin aðgengileg á vefnum en ég datt næstum því af stólnum mínum á skrifstofunni þegar hann opnaði ræðu sína á því að ástandið og aðgerðirnar sem við værum nú undirorpin sem þjóð væru ekki vegna ástandsins á Landspítalanum. Mig langar bara að biðja hæstv. ráðherra í seinni ræðu sinni að fara aðeins ítarlegar í þetta sjónarmið ef ég misskildi hann ekki. Ég sé að hæstv. ráðherra hristir hausinn þannig að ég er ánægður að þetta hafi verið misheyrn hjá mér varðandi upphaf ræðu hæstv. ráðherra.

Mig langar til að benda á mál sem liggur hér fyrir þar sem fyrsti flutningsmaður er hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir. Þetta er frumvarp til laga um breytingu á sóttvarnalögum þar sem allur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins, sýnist mér, utan ráðherra og forseta Alþingis, gerir tillögu um breytingu á sóttvarnalögum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra skal kynna ákvörðun um setningu reglna skv. 12. gr. og ákvæði þessu í velferðarnefnd Alþingis áður en þær taka gildi eða svo fljótt sem verða má verði því ekki komið við.“

Þetta ástand er búið að vara í rétt um tvö ár og núna leggur þingflokkur stærsta stjórnarflokksins fram tillögu sem þessa. Má skilja það sem svo að hæstv. velferðarráðherra hafi hafnað þessu verklagi á fyrri stigum? Ég gef mér að beiðni þess efnis hljóti að hafa komið fram frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins úr því að þingflokkurinn í heild sinni sér ástæðu til að leggja fram lagabreytingartillögu þessa efnis. Það væri áhugavert ef hæstv. ráðherra kæmi inn á það í seinni ræðu sinni hvort þessi mál hafi verið rædd milli hans og stærsta stjórnarflokksins, Sjálfstæðisflokksins.