152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[12:26]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég finn mig knúna til að koma hingað upp og ræða frávísunartillöguna sem hér var nefnd. Mér heyrist það vera afstaða hv. þm. Eyjólfs Ármannssonar að mér beri að leggja hér fram á Alþingi hina eiginlegu og fyrirhuguðu tillögu til forseta Íslands um að staðfesta forsetaúrskurð eða hinn fyrirhugaða forsetaúrskurð sjálfan. Áskilnaður 2. gr. laga um Stjórnarráðið leggur hins vegar þá skyldu á forsætisráðherra að leita stuðnings Alþingis við fyrirhugaðar breytingar á skiptingu Stjórnarráðs Íslands í ráðuneyti áður en frá slíkum breytingum er gengið með tillögu til forseta Íslands og útgáfu forsetaúrskurðar þar að lútandi og það skal gert í formi þingsályktunartillögu. Þannig að þessi frávísunartillaga er byggð á misskilningi. Breytingarnar sem koma fram í texta þingsályktunartillögunnar snúast um það hvernig á að skipta á Stjórnarráði Íslands í ráðuneyti og ég geri bara ráð fyrir því að alþingismenn þekki svo fjölda og núverandi skipan ráðuneyta og heiti þeirra. Í kjölfar samþykktar eða afgreiðslu þingsályktunartillögunnar er svo sendur (Forseti hringir.) forsetaúrskurður til forseta Íslands. Ég finn mig knúna til að koma hingað upp og ítreka það sem (Forseti hringir.) ég sagði í framsöguræðu minni, en þessi frávísunartillaga byggist á misskilningi.