Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

253. mál
[16:03]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra kærlega fyrir svarið. Það er nefnilega ágætt að hugleiða þetta allt saman samhliða þessum efnahagsráðstöfunum sem verið er að grípa til og sem þingið er að grípa til með tilheyrandi útgjöldum fyrir ríkissjóð. Þetta er algerlega málið. Svo ég segi það þá hef ég verið mjög mikill talsmaður þess, sérstaklega framan af faraldri, að aðgerðir þyrftu að vera svolítið markvissar í sóttvarnamálum þegar allt saman var miklu hættulegra, þegar ógnin var miklu meiri. En ég árétta það að við erum á allt öðrum stað í dag og það er orðið tímabært að taka mannréttindahlutann af þessu sterkar og meira inn í jöfnuna. Nú erum við t.d. að tala um aðgerðir til tiltekins hóps sem hefur ofureinfaldlega verið í þeirri stöðu að hann hefur ekki getað sinnt fyrirtækjum sínum sem skyldi. Þetta er oft fólk sem hefur lagt jafnvel aleiguna undir, stritað mikið til að byggja upp blómleg og góð fyrirtæki og fær allt í einu í fangið eitthvert ástand sem það ber ekki neina ábyrgð á, skilvíst, gott, reglusamt fólk sem rekið hefur sín fyrirtæki vel. Okkur hættir stundum til, þegar við erum að tala um mjög afmarkaða hluta þessa, að tala t.d. um bari eða veitingastaði þannig að þetta skipti kannski ekki miklu máli því að við getum alveg sleppt því að djamma eða eitthvað þess háttar eða koma saman á veitingastöðum. En það er auðvitað bara atvinnufrelsi fólks undir. Ég ætla að leyfa mér að fagna því mjög að menn eru farnir að taka það miklu meira inn í jöfnuna. Við þurfum svo sannarlega að halda vöku okkar í því. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svarið en engu að síður er enn þá áleitin sú spurning hvort það geti verið að þessar ráðstafanir sem gripið var til síðast séu að verða þess valdandi að við séum í algerum óþarfa að bæta fólki tjón sem við hefðum ekki þurft að valda því.