Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

253. mál
[16:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru gríðarlega flókin álitaefni og eitt af því sem var flókið í upphafi faraldursins var að við vissum svo lítið en við höfum þóst vera að læra allan tímann en svo þegar við töldum okkur vita þokkalega mikið til þess að geta tekið ákvarðanir þá kemur bara nýtt afbrigði. Við höfum síðustu tvo mánuði verið að læra á það afbrigði sem hefur hegðað sér með allt öðruvísi hætti en eldri afbrigði. Eftir klukkutíma verð ég kominn á ráðherranefndarfund vonandi til þess að ræða einmitt hvað eigi að gera í því máli.

Mig langar til að nefna einn vinkil inn í þessa umræðu sem ég held að skipti talsvert miklu máli í samhengi við það hvort stjórnvöld grípi of harkalega inn í. Hann hefur komið fram áður. Hann hefur birst m.a. í efnahagsgreiningum á þessu þar sem við vorum með þriggja manna ráð sem kom stjórnvöldum til hjálpar við að meta efnahagsleg áhrif aðgerðanna og faraldursins og varðar það að það getur líka haft mjög miklar afleiðingar að gera ekki neitt. Að leyfa veirunni að breiðast út getur skapað ástand þar sem fólk heldur sig heima, fer ekki á veitingastaði, ferðamenn kæmu ekki til landsins ef við hefðum ekki stjórn á ástandinu og ef hér væru að berast slæmar fréttir af spítölunum þá myndi fólk vera mjög vart um sig. Það myndi á endanum valda tjóni fyrir bareigandann, fyrir hóteleigandann, fyrir ferðaþjónustufyrirtækin. Það er því í raun og veru meðalhófið sem hér hefur borið á góma sem skiptir öllu og að finna þennan vandrataða meðalveg milli þess að gera ekki neitt og gera of mikið. Ég held að það að gera ekki neitt hefðu verið hroðaleg mistök. Ég ítreka það sem ég hef sagt áður: Við höfum á alla mælikvarða náð frábærri niðurstöðu í okkar aðgerðaáætlunum, á alla mælikvarða, efnahagslega mælikvarða, á mælikvarða heilbrigðiskerfis og fleira. En nú erum við komin í enn eina lotuna með enn nýjar upplýsingar og nú þurfum við áfram að vanda okkur.