152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

Menntasjóður námsmanna.

175. mál
[16:57]
Horfa

Flm. (Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var í þessari vinnu líka og þekki málaflokkinn ágætlega, bæði innan úr nefndinni og eftir að hafa setið í stúdentaráði og eftir að hafa verið í framhaldsnámi erlendis þar sem sannarlega reyndi á þessa þætti sem hv. þingmaður nefndi. Og vitaskuld er það þannig að þegar þú bætir stuðningi við ofan á námslánakerfið er nemandi betur settur en án þess. Það held ég að blasi nú við fólki. En við höfum sama svigrúm til lána og er í kerfinu í dag með þessari leið. Það eru engar takmarkanir gagnvart doktorsnemum. Það á vitaskuld að skoða tímamarkið. En hugsunin í þessu frumvarpi er framfærslan, framfærsluhlutinn, að hún sé fullnægjandi. Hér er ekkert verið að hrófla við því regluverki sem á við um skólagjaldalánin. Þannig að það eru tveir punktar í þessu sem lúta að framfærslunni og styrkari stoðum fyrir stúdenta á meðan þeir eru í námi.

En svo þakka ég þingmanninum kærlega fyrir sýndan áhuga og vonast til að málið fái yfirferð í nefndinni og umfjöllun, því að það er einlæg skoðun mín að þetta sé aukinn stuðningur við námsmenn og þeir þurfa sannarlega á því að halda að fá hann.