152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

afnám 70 ára aldurstakmörkunar í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

160. mál
[17:16]
Horfa

Flm. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um afnám 70 ára aldurstakmörkunar í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þar segir svo að Alþingi álykti að fela fjármála- og efnahagsráðherra, í samráði við félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, að hefja viðræður við samtök opinberra starfsmanna um afnám þeirra ákvæða í lögum sem takmarka starf opinberra starfsmanna við 70 ára aldur. Meðflutningsmenn með mér eru hv. þingmenn Jódís Skúladóttir, Orri Páll Jóhannsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Tómas A. Tómasson, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir og Guðmundur Ingi Kristinsson.

Markmið þingsályktunartillögu þessarar er að veita opinberum starfsmönnum möguleika á að vera áfram í starfi eftir að 70 ára aldri er náð, ef þeir vilja og treysta sér til. Tillagan var fyrst lögð fram á 150. löggjafarþingi og gekk þá til efnahags- og viðskiptanefndar eftir fyrri umræðu og bárust umsagnir frá BSRB og Landssambandi eldri borgara. Málið var lagt fram að öðru sinni á 151. löggjafarþingi, 185. mál, og barst þá umsögn frá Alþýðusambandi Íslands auk fyrri umsagnar BSRB.

Í umsögn sinni fagnaði BSRB tillögunni auk þess sem samtökin lýstu sig reiðubúin til að taka þátt í þeirri vinnu sem í henni fælist. Lögð var áhersla á samráð við stéttarfélög opinberra starfsmanna, líkt og gert er ráð fyrir í tillögunni, og að einungis væri um að ræða heimild til að halda áfram í starfi eftir að 70 ára aldri er náð. Vísað var til heimildar í kjarasamningi BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga til að framlengja ráðningu starfsmanna sem hafa náð 70 ára aldri um allt að tvö ár. Starfsmenn ríkisins eiga hins vegar ekki sömu möguleika og opinberir starfsmenn sveitarfélaga til að vinna eftir sjötugt. Þá var bent á að lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna tækju ekki við lífeyrisgreiðslum eftir að starfsmaður hefði náð 70 ára aldri. Landssamband eldri borgara ítrekaði að nauðsynlegt væri að endurskoða starfslok vegna aldurs m.a. í ljósi þess að lífaldur hefði hækkað til muna síðastliðna áratugi. Þá taldi sambandið hina svokölluðu 70 ára reglu bæði úrelta og í ósamræmi við mannréttindi. Alþýðusamband Íslands segir í umsögn sinni samtökin vera hlynnt því að hverfa frá núverandi fyrirkomulagi en breytingar geti haft áhrif á kjarasamninga aðildarsamtaka ASÍ við ríki og sveitarfélög og mikilvægt að skoða allar breytingar í því ljósi.

Í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, er lögfest sú regla að opinberir starfsmenn skuli láta af störfum við 70 ára aldur. Í 1. mgr. 33. gr. laganna er kveðið á um að embættismanni skuli veita lausn frá og með næstu mánaðamótum eftir að hann nær 70 ára aldri og hið sama gildir um þá sem skipaðir eru tímabundið í embætti. Í 2. mgr. 43. gr. segir að starfsmanni skuli jafnan segja upp störfum frá og með næstu mánaðamótum eftir að hann nær 70 ára aldri. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 70/1996 eru ekki færð sérstök rök fyrir því að viðhalda umræddu aldurshámarki sem þá var að finna í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 38/1954 segir m.a. í athugasemdum við 13. gr. að skiptar skoðanir séu um hvort lögbjóða skuli aldurshámark opinberra starfsmanna og þá við hvaða aldur skuli miðað. Eru þar tíunduð þau rök með aldurstakmörkuninni að 60–70 ára gamlir menn væru yfirleitt ekki lengur fullgildir starfsmenn, að sjaldnast viðurkenndu þeir það sjálfir og að veita þyrfti ungum mönnum færi á að komast til starfa. Svo mörg voru nú þau orð árið 1954.

Samkvæmt lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, er bein eða óbein mismunun á grundvelli aldurs óheimil þegar kemur að aðgengi að störfum og þar með við ráðningar og framgang í starfi. Þó er undantekningu að finna í 12. gr. laganna, en hún kveður á um að mismunandi meðferð vegna aldurs teljist ekki brjóta gegn lögunum séu færð fyrir henni málefnaleg rök sem helgast af lögmætu markmiði, þar með talið stefnu í atvinnumálum eða öðrum markmiðum er varða vinnumarkað, enda gangi slíkar aðgerðir ekki lengra en nauðsynlegt er talið til að ná því markmiði sem stefnt er að.

Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 86/2018 segir m.a. um 12. gr. að heimilt verði talið að kveða á um sérstakan eftirlaunaaldur sé tilgangurinn sá að ná tilteknu lögmætu markmiði, svo sem í ljósi opinberrar stefnu í atvinnumálum.

Flutningsmenn benda á að lífsgæði og aðstæður hafa breyst mikið frá því að lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins voru sett. Auknar lífslíkur og bætt heilsa fólks hefur gert því kleift að starfa lengur en það gerði áður. Telja flutningsmenn rétt að opinber stefna í atvinnumálum endurspegli þá breytingu og gefi þeim sem vilja starfa lengur og hafa heilsu til þann möguleika og færni í starfi. Þessu til stuðnings má nefna að í sumum tilfellum halda starfsmenn opinberra stofnana áfram störfum fyrir þær sem verktakar eftir starfslok við 70 ára aldur. Jafnframt kann að vera að hið opinbera tapi þekkingu til hins almenna vinnumarkaðar þar sem ekki er að finna sambærilegar aldurstakmarkanir.

Tillögu þessari er hvorki ætlað að hvetja opinbera starfsmenn til að lengja starfsævi sína né þrýsta á um það og mikilvægt er að sjónarmið fulltrúa opinberra starfsmanna komi fram þegar reglum um þá er breytt. Flutningsmenn leggja því áherslu á að unnið verði að afnámi umræddra aldurstakmarkana í samvinnu við samtök opinberra starfsmanna og leggja áherslu á mikilvægi þess að útfærsla afnámsins verði vönduð og unnin í sátt.

Eins og hér hefur komið fram er heimurinn talsvert breyttur og fólk lifir sem betur fer mun lengur en það gerði á sínum tíma þegar þessi lög voru sett. Við skilgreinum okkur ekki endilega eftir aldri heldur fyrst og fremst eftir því hvað við viljum gera og hvað við erum fær um að gera og eigum ekki heldur að horfa fram hjá því að við erum öll misjöfn og erum á mismunandi stað þegar við nálgumst sjötugt.

Ég held líka að það sé gríðarlega mikil þekking hjá eldra fólki sem er að ná sjötugu sem hefur þurft að hætta, jafnvel bara vegna þess að var sjötugt og það hefur tapast ákveðin þekking og reynsla en fólk hefur haft starfsgetu og löngun til þess að vinna áfram. Ég tel bagalegt að þetta sé svona, að fólki sé í rauninni bara ýtt út af vinnumarkaði á jafn ómálefnalegum forsendum í rauninni og aldur er einn og sér. Það má meira að segja jafnvel tala um að þetta séu ákveðnir öldrunarfordómar vegna þess að um leið og þú nærð einhverjum aldri hafir þú misst hæfni og færni sem er auðvitað ekki rétt. Ég vona sannarlega að tillagan nái fram að ganga, hún hefur fengið góðar umsagnir í bæði skiptin sem hún var tekin fyrir í efnahags- og viðskiptanefnd og hjá umsagnaraðilum. Ég vona að þessi hópur verði settur í gang og við þingmenn hljótum að geta sameinast um að tímabært sé að breyta lögum og skilgreina okkur ekki eingöngu út frá aldri.