Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Í mars á síðasta ári hófst starfsemi Sigurhæða á Selfossi þar sem boðið er upp á þjónustu við þolendur kynbundins ofbeldis á Suðurlandi. Það var Soroptimistaklúbbur Suðurlands sem hafði forgöngu um stofnun verkefnisins og langar mig að þakka þeim fyrir framtakið hér úr ræðustóli Alþingis. Sigurhæðir eru fyrsta og eina úrræði sinnar tegundar á Suðurlandi og er með víðtækasta og virkasta net samstarfsaðila á landinu eða 22 aðila alls. Vert er að taka fram að mikil ánægja með verkefnið frá samstarfsaðilum og hafa þeir nefnt hversu gott er að geta vísað konum í úrræði þar sem faglegur og hlýr faðmur tekur á móti þeim. Mjög gott samstarf hefur verið við lögregluna, Félagsþjónustu sveitarfélaga og Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Á þessu fyrsta starfsári Sigurhæða hefur starfsemin verið afskaplega vel tekið og ljóst er að mikil þörf var fyrir þjónustu sem þessa. Nú er svo komið að tæplega 200 konur hafa verið eða eru í þjónustu Sigurhæða og viðtöl nálgast 600. Er þá viðamikið hópastarf ekki talið með. Sigurhæðir hafa fest sig í sessi bæði sem verkfæri samstarfsaðilanna 22 sem nýta úrræðið mjög vel og einnig meðal sunnlenskra kvenna sem æ oftar koma að eigin frumkvæði. Höfuðverkefni nú er að tryggja rekstrargrundvöll Sigurhæðir til framtíðar. Sigurhæðir hafa leitað til þingsins og til félagsmálaráðuneytisins eftir fjármagni til að tryggja starfsemina til framtíðar. Það er almennt mat allra sem að starfseminni koma og er staðfest í óháðri úttekt Háskóla Íslands á Sigurhæðum að geysimikil ánægja ríkir með Sigurhæðir meðal samstarfsaðila, skjólstæðinga og sjálfboðaliða.