Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Ég vildi gera hér að umtalsefni og benda þingheimi og þjóðinni á áhugaverða grein sem birtist á Kjarnanum í dag. Fyrirsögnin er svona: „Þýskaland sendir nánast ekki nokkurn flóttamann aftur til Grikklands.“ Sagan er þarna rakin. Dómstólar í Þýskalandi hafa komist að þeirri niðurstöðu að það sé ómannúðlegt að gera það og þar er vísað til dóms Evrópudómstólsins frá árinu 2019. Í þessari grein á Kjarnanum er haldið áfram að benda á alls konar staðreyndir, til að mynda að ríki Evrópu hafi sent 96 hælisleitendur til baka til Grikklands á fyrstu sex mánuðum ársins. Við Íslendingar ætluðum að senda 30 á dögunum með einni flugvél í atburði sem hæstv. dómsmálaráðherra talaði um að væri nánast vikulegt brauð hér á Íslandi.

Það er hollt fyrir okkur að hafa þetta í huga. Staðan er sú að það er ómannúðlegt að senda fólk á götuna í Grikklandi, ekki síst ef það er í hjólastól. Þess vegna er sérkennilegt að við skulum gera það og sérkennilegt að stjórnmálaflokkurinn sem stendur einna helst fyrir því skuli á landsfundi sínum um helgina hafa samþykkt það og reynt að fullvissa fólk um að stefnan sé eftir sem áður mannúðleg. Það að segja að maður ætli að vera góður við fólk er ekki nóg, maður þarf að reyna að vera góður við fólk. Það er ekki nóg að hlutirnir séu í orði, þeir verða líka að vera í verki. Þess vegna hafa þrír þingflokkar, Viðreisn, Píratar og Samfylking, lagt fram þingsályktunartillögu, núna í annað sinn, þar sem fram kemur vilji til þess að stöðva brottvísanir og endursendingar flóttafólks til Grikklands, Ítalíu og Ungverjalands. Af hverju gerum við það? Jú, það er vegna þess að Ísland á að vera ríki sem virðir mannréttindi og er með þau í verki en ekki bara í orði.