Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Já, í gær sat ég líka þetta frábæra kvennaþing sem haldið er í Hörpu, en mér skilst að hér undir liðnum fundarstjórn forseta hafi ég sem formaður allsherjar- og menntamálanefndar verið gagnrýnd fyrir fundarstjórn mína. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki náð að hlusta á allt það sem fram kom þar undir fundarstjórn forseta en ég ætla bara að segja að það að halda því fram að eitthvað hafi verið afmáð úr fundargerðum allsherjar- og menntamálanefndar er bara helber vitleysa. Það hefur ekki átt sér stað. Svo öllum sé það ljóst mættu fulltrúar ríkislögreglustjóra, stoðdeildir ríkislögreglustjóra, á fund okkar í allsherjar- og menntamálanefnd í gær og áttum við þar mjög gott samtal þar sem þessir aðilar fóru yfir þá brottvísun sem hefur verið mikið í fjölmiðlum og fundarmenn gátu spurt. Á morgun mætir svo á fund nefndarinnar Útlendingastofnun og dómsmálaráðherra þar sem aftur verður hægt að ræða sama mál og nefndarmönnum er frjálst að spyrja. Ég vil koma því á framfæri hér varðandi það að óskað hafi verið eftir gestum að við verðum að sjálfsögðu við því, en það er ekki þar með sagt að ég sem formaður nefndarinnar geti ekki haft dagskrárvaldið og ákveðið hverjir koma hvenær. Það er reynt að verða við því eins fljótt og hægt er og svo verður.

En ég ætla af þessu tilefni líka, vegna þess að hér er verið að ræða sérstaklega endursendingar, brottvísanir til Grikklands, að segja að mér finnst bara gott að hv. þingmenn hafi lagt fram þingsályktunartillögu þar sem þeir tala sínum rómi um að þeim finnist að við eigum að hætta slíkum endursendingum. Ég held samt að við þurfum aðeins að hafa í huga að aldrei hafa fleiri verið á flótta í heiminum. Það er fjöldi fólks sem hefur í gegnum tíðina leitað hingað til lands sem er líka með vernd í öðrum löndum og þeim einstaklingum sem var vísað brott og voru fluttir sérstaklega til Grikklands um daginn eru alls ekki eina fólkið sem þar er með vernd og hefur farið aftur til baka. Fjöldi fólks hefur farið að sjálfdáðum til baka. Ég held við þurfum að hafa það aðeins í huga (Forseti hringir.) þegar við tökum á móti fólki sem er í mjög erfiðum aðstæðum hvernig við ætlum að forgangsraða. Er eðlilegra að taka fólk sem er ekki (Forseti hringir.) með vernd í öðrum löndum eða viljum við láta þá ganga fyrir sem þegar hafa fengið vernd í öðrum löndum?