Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Geta þau ekki bara fengið sér vinnu? er oft viðkvæðið þegar við erum að mótmæla brottvísun flóttafólks. Geta þau ekki bara fengið vinnu og komið eftir þeirri leið til landsins? Þetta er viðkvæði flokkanna sem eru búnir að vera í ríkisstjórn lengur en elstu menn muna og hafa ekki notað þau völd til þess einmitt að auðvelda þessu fólki að fá sér vinnu. Sú leið er nefnilega alveg jafn lokuð og hún var fyrir þremur, fjórum eða fimm árum á sama tíma og áfram er verið að senda umsækjendur um alþjóðlega vernd úr landi.

Í Kastljósi í fyrradag fengu menn sjá raunverulegt dæmi um fólk í þessari stöðu: Rússnesk hjón sem vegna baráttu gegn harðstjórninni í Rússlandi þurftu að flýja land. Þeirra fyrsti viðkomustaður var Ítalía en svo kom þau til Íslands því að hér áttu þau rætur. Hingað hafa þau komið ótal sinnum með ferðamenn, þau eiga vini og þekkja landið; þau elska Ísland og hér vilja þau vera. Hann er meira að segja kominn með atvinnutilboð, en hann getur ekki nýtt sér það vegna þess að kerfið leyfir það ekki. Sama kerfi og Sjálfstæðisflokkurinn sérstaklega vill meina að fólk eigi að geta nýtt sér til að komast í vinnu frekar en að sækja í verndarkerfið.

Hinn spræki varaþingmaður, Friðjón Friðjónsson, minnti okkur á að nú um helgina hefði landsfundur Sjálfstæðisflokksins verið haldinn og hann heldur því fram að flokkurinn standi fyrir umburðarlyndi og að Ísland sé opið fyrir fólki sem hingað kemur. Máli sínu til stuðnings vísaði hann í ályktun flokksins frá helginni um að leyfa ætti fólki utan Evrópska efnahagssvæðisins, sem hér hefur fengið starf og er með hreint sakavottorð, að koma hingað og starfa. (Forseti hringir.) Hv. varaþingmaður hefur kannski ekki tekið eftir þeim Antoni og Viktoríu sem standa hér fyrir utan (Forseti hringir.) Alþingi og mótmæla vegna þess að þau fá einmitt ekki koma hingað og starfa, vegna þess að þau fá ekki að vera hér á landi í nafni hins meinta umburðarlyndis Sjálfstæðisflokksins.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á að ræðutími undir þessum dagskrárlið, störf þingsins, er 2 mínútur.)