Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

Geðheilbrigðisþjónusta.

[15:46]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir að óska eftir þessari umræðu og taka þetta mikilvæga mál á dagskrá hér. Það er sannarlega mikilvægt, eins og hv. þingmaður fór ágætlega yfir. Það er víðfeðmt og snertir í raun og veru öll svið samfélagsins.

Hv. þingmaður spyr hér fyrst spurningar um hvað sá er hér stendur hyggst gera til að efla geðheilbrigðisþjónustu í landinu. Þetta er viðamikið verkefni en ég byrjaði á því að leggja hér fram stefnumótun fyrir þingið, þingsályktunartillögu, í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 sem var samþykkt hér á Alþingi 15. júní síðastliðinn. Sú stefna byggir á viðamikilli greiningarvinnu og miklu samráði við notendur, fjölskyldur þeirra og heilbrigðisstofnanir og í raun allt samfélagið í gegnum samráðsgátt og svo ekki síst þá umfjöllun sem sú stefna fékk hér í þinginu og í hv. velferðarnefnd, sem er vel. Þannig að þingið er raunverulega búið að fela mér þetta verkefni, ákvörðunina í þessari stefnu og að hrinda henni í framkvæmd með fimm ára áætlun og í samráði við helstu hagsmunaaðila. Þess vegna gerði ég það strax í kjölfarið að skipa samráðshóp til að þróa þessa aðgerðaáætlun til áranna 2023–2027. Í þeim hópi sitja fulltrúar frá ráðuneytinu, fulltrúar notenda, heilbrigðisþjónustustofnana og háskólasamfélags, þannig að það er öll breiddin í því og mjög öflugur hópur og sér fyrir endann á þeirri vinnu.

Áherslurnar í þeirri aðgerðaáætlun munu byggja á þessum fjórum meginmarkmiðum stefnunnar sem eru í fyrsta lagi að geðrækt, forvarnir og snemmtæk úrræði verði grundvöllur geðheilbrigðis einstaklinga, okkar allra, allan aldursskalann.

Í öðru lagi að heildræn geðheilbrigðisþjónusta verði samþætt og byggð á bestu mögulegu gagnreyndu meðferð, hæfingu og endurhæfingu og að þjónustan verði veitt af hæfu starfsfólki á viðeigandi þjónustustigum í árangursríku samstarfi við þjónustuveitendur í velferðarþjónustu. Það er kannski svolítið mikið verkefni, eins og hv. þingmaður kom hér inn á í sinni ræðu. Þetta er þvert á öll svið samfélagsins og við verðum að ná utan um það þannig að það verði ekki þessi gráu svæði eða skil á milli þegar við veitum þjónustu og sinnum fólki.

Í þriðja lagi að notendasamráð og notendamiðuð þjónusta verði á öllum stigum geðheilbrigðisþjónustu.

Í fjórða lagi að nýsköpun, vísindi og þróun leiði til betri geðheilbrigðisþjónustu og bætts aðgengis. Við hlúum þannig að geðheilsunni alla ævi.

Hv. þingmaður spyr einnig hvort sá er hér stendur hafi rætt við geðheilbrigðisfagfólkið í geðheilbrigðisþjónustu um vaxandi geðheilbrigðisvanda. Ég held að hluti af þessu í þeim samtölum sem ég hef átt — af því að einfalda svarið er auðvitað já og mikið af tíma mínum fer auðvitað bara í samtalið, það er bara hluti af þessu öllu saman — er þetta verkefni sem hv. þingmaður kom líka inn á, að við erum þarna, eins og í allri heilbrigðisþjónustunni, að kljást við mannekluna. Það er stærsti vandinn. Fagfólkið.

Hv. þingmaður kom hér inn á eitt dæmi um kjarnaþjónustu okkar, þriðja stigs þjónustu á Landspítalanum, að þegar við ætluðum að efla og færa okkur nær notandanum eða geðheilsuteymunum, sem koma mjög vel út í viðbættri þjónustu, þá þurfti að fá fólkið einhvers staðar að og þá var það að finna á Landspítalanum sem inn í geðheilsuteymið líka. Þannig að það verður verkefni inni í framtíðina að manna þetta betur.

Það eru síðan tvær mjög góðar spurningar sem ég skal koma inn á hér í seinna. Þetta er svo stórt umræðuefni að við skulum bara taka það oftar á dagskrá hér.