Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

Geðheilbrigðisþjónusta.

[16:04]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ingu Sæland frumkvæðið að þessari umræðu. Við erum svo heppin að lifa tíma þar sem miklar breytingar eiga sér stað varðandi geðheilbrigði á heimsvísu, ekki síst á viðhorfum og uppbyggingu þjónustu. Breytingarnar hafa verið að eiga sér stað, eru að eiga sér stað og munu halda áfram að eiga sér stað. Það er mikilvægt að ræða þær hér og sem víðast í samfélaginu. Fögnum framfaraskrefum eins og stefnu í geðheilbrigðismálum sem samþykkt var hér 15. júní með öllum greiddum atkvæðum, uppbyggingu geðheilsuteyma, nýjum samningi um sálfræðiþjónustu, þeim fyrsta sem snýr að niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu fullorðinna og opnaði á viðtöl í gegnum fjarfundabúnað sem þýðir bætt aðgengi óháð búsetu. Órjúfanlegur hluti geðheilbrigðisþjónustu eru forvarnir en forvarnaverkefni sem hafa áhrif á geðheilsu eru ekki endilega merkt sem slík, telja ekki í framlögum til geðheilbrigðismála og eru stundum ekki einu sinni hluti af heilbrigðiskerfinu. Gleymum samt aldrei mikilvægi þeirra. Rannsóknir hafa sýnt að sömu einföldu skilaboðin hafa forvarnagildi á svo mörgum sviðum og þess vegna skilar öll markviss forvarnavinna með börnum og fjölskyldum árangri. Lýðheilsuþing 2022 sem haldið verður á morgun leggur þar línur til framtíðar. Liður í forvörnum er líka heilsulæsi og þar vil ég vekja máls á mikilvægi fræðslu fyrir börn, ungmenni og fjölskyldur sem glíma við geðrænan vanda eða taugaþroskaraskanir. Til þess þarf samvinnu á milli kerfa. Síðustu vikur hef ég velt fyrir mér hvort besta forvörnin felist ekki í að kenna börnunum okkar að það eru ekki til fullkomnar manneskjur, hvorki þau sjálf, heimilisfólkið eða annað samferðafólk, ekki einu sinni áhrifavaldar á samfélagsmiðlum.