Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

Geðheilbrigðisþjónusta.

[16:09]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir mikilvæga umræðu. 8.300 einstaklingar voru að hluta eða öllu leyti óvinnufærir sökum geðraskana árið 2020. Fjölgun fólks á örorku- eða endurhæfingarlífeyri vegna geðraskana á tíu ára tímabili, 2010–2020, var 30%. Geðraskanir eru helstu orsakir örorku eða rúmlega þriðjungur tilvika árið 2020. Ef ekki er litið til geðraskana sem meginástæðu örorku hækkar hlutfallið í 60%. Það eru 60% sem glíma við geðræn vandamál. Beinn kostnaður félagstrygginga í örorku- og endurhæfingarlífeyri óvinnufærra vegna geðraskana var árið 2020 tæpir 27 milljarðar kr. Málið er risavaxið og mikilvægt að ná tökum á því, ekki síst fyrir það fólk sem glímir við þennan vanda.

Eins og hefur verið komið inn á kom Ríkisendurskoðun fram með skýrslu um geðheilbrigðisþjónustu. Skýrslan sýnir að átak hefur átt sér stað í geðheilbrigðismálum og ýmsar úrbætur hafa gefið góða raun. Vankantar við framkvæmd þjónustunnar skyggja verulega á þann árangur. Skipulag geðheilbrigðisþjónustu er í samræmi við stefnu stjórnvalda um að rétt þjónusta skuli veitt á réttum stað. Ýmsar aðgerðir hafa verið til bóta, t.d. skipting heilbrigðisþjónustu í fyrsta, annars og þriðja stigs þjónustu, en þar hefur þó skort á skilgreiningar sem eykur á gloppur í kerfinu. Einnig kemur fram að skortur á fagmenntuðu starfsfólki stendur geðheilbrigðisþjónustu fyrir þrifum og er ein helsta ástæða fyrir mikilli bið innan kerfisins.

Ég fagna því orðum hæstv. ráðherra sem bera merki um mikinn skilning á vandanum og vilja til að bregðast við. Það er til mikils að vinna og nauðsynlegt að horfa til þess að vandinn eykst ár frá ári (Forseti hringir.) og aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu verður að bæta svo að fólk sem þarf á hjálp að halda fái þá aðstoð sem það hefur þörf fyrir.