Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

rannsókn á vinnuhælinu á Kleppjárnsreykjum o.fl.

30. mál
[16:38]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta mál. Ég er ánægð með að vera meðflutningsmaður á því. Þetta er ótrúleg saga sem gerðist á þessum árum, 1942–1943. Ég er einlæglega sammála því að þetta eigi að rannsaka. Slík rannsókn yrði einfaldlega mikilvægur liður í því að gera það upp, og gera það upp fyrir opnum tjöldum, sem þarna átti sér stað og að stjórnvöld svari þessum einföldu en mikilvægu spurningum um hvað það var sem þarna gerðist og hvers vegna; hvaða áhrif það hafði t.d. á þessar 14 stúlkur sem sættu vistun á hælinu, hvaða áhrif það hafði á líf þeirra og hver meðferðin var á meðan á vistuninni stóð, en kannski ekki síður í kjölfarið. Það þarf líka að skoða hvað það var sem leiddi til þess að þessar 14 stúlkur sættu vistun á hælinu því að ég hef þá tilfinningu, eftir að hafa fylgst með umfjöllun um þessi mál og lesa mér aðeins til um þau, að það hafi ekki verið alveg tilviljanakennt, þegar litið er á bakgrunn þeirra, hvaða stúlkur það voru sem fengu þessa harðneskjulegu meðferð á sínum tíma.

Ég er líka sammála því, og tel raunar að það þurfi ekki rannsókn til, að stjórnvöld eigi að biðjast afsökunar á þessum kafla og á því sem þarna gerðist þó að það séu auðvitað aðrir við stjórn landsmála í dag en þá var. En ég tel einfaldlega mikilvægt að rannsaka þetta og ég tel mikilvægt að sú rannsókn verði líka hluti af okkar sögu og okkar sagnfræði og hluti af okkar kvennarannsóknum, (Forseti hringir.) það er það sem ég vildi segja hér.