Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

rannsókn á vinnuhælinu á Kleppjárnsreykjum o.fl.

30. mál
[16:44]
Horfa

Flm. (Gísli Rafn Ólafsson) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvarið og aftur erum við hjartanlega sammála um þetta allt. Þarna voru svo sannarlega börn og í þessum hópi voru líka konur sem höfðu náð 18 ára aldri. En það var líka þannig að ekki var gerður greinarmunur á því hvernig samskiptin voru. Það voru dæmi um það að ungar stúlkur væru dæmdar til vistar fyrir það eitt að hafa haldist í hendur á almannafæri við hermann. Það voru líka dæmi um að konur sem urðu ástfangnir af einum manni, voru með einum manni og aðeins einum manni, voru dæmdar fyrir lauslæti. Allt er þetta eitthvað sem okkur finnst kannski vera skrýtið í dag en við megum ekki gleyma því að persónunjósnir, kynþáttahyggja — þetta er allt saman að grassera aftur núna. Þess vegna er svo mikilvægt að við lærum af þessum mistökum fortíðarinnar og að við biðjum þá afsökunar sem við brutum á. Ef við lærum ekki af þessum mistökum munum við endurtaka þau aftur og aftur.