154. löggjafarþing — 28. fundur,  13. nóv. 2023.

vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga.

485. mál
[13:08]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Í dag er hugur okkar allra hjá Grindvíkingum sem hafa þurft að flýja heimili sín og búa við algera óvissu um framhaldið. Það er ótrúlega fallegt að verða vitni að þeirri samstöðu og samkennd sem þjóðin hefur sýnt Grindvíkingum síðustu daga. Á tímum sem þessum skiptir mestu máli að við stöndum þétt við bakið á þeim og gerum okkar allra besta til að raskið af þessum hörmungum verði sem minnst og vari sem styst. Þá vil ég taka undir einlægar þakkir til viðbragðsaðila fyrir óþreytandi og óeigingjörn störf í þágu almennings.

Forseti. Frumvarpi þessu er ætlað að gera viðbragðsaðilum kleift að byggja varnargarða til að reyna eftir fremsta megni að verja byggðina í Grindavík og virkjunina í Svartsengi og tryggja þannig nauðsynlega grunnþjónustu við alla íbúa á Suðurnesjum. Markmið frumvarpsins er því mjög mikilvægt og við Píratar styðjum það markmið heils hugar. Þinginu er gefinn mjög skammur tími til að afgreiða þetta frumvarp en stefnt er að því að klára það í kvöld. Þegar af þeirri ástæðu er vert að staldra við og spyrja sig hvort öll atriði í þessu frumvarpi þurfi slíka flýtimeðferð til að markmiðinu með frumvarpinu verði náð.

Í fyrsta lagi þarf að velta því upp hvort þörf sé á að búa til nýjan skattstofn á einum degi til að greiða fyrir framkvæmd sem vel ætti að rúmast innan fjárlaga. Þegar 2,5 milljarða framkvæmdir eru skoðaðar í samhengi ríkisfjármála er ekki um stóra upphæð að ræða. Hefur verið skoðað að afgreiða þessa tilteknu framkvæmd með varasjóði ríkisstjórnarinnar og viðbótarfjárlögum næsta árs? Fjárlögin eru jú til umfjöllunar í fjárlaganefnd þessa dagana. Slík nálgun myndi gefa okkur meira rými til að ræða hvernig fjármögnun á vörnum fyrir mikilvæga innviði landsins væri best fyrir komið. Þess í stað fer ríkisstjórnin þá leið að leggja til nýjan skattstofn, tímabundið samkvæmt frumvarpinu en hann ber þó öll merki þess að eiga að gilda um ókomna tíð. Okkur finnst í öllu falli ekki nauðsynlegt að samþykkja nýjan skattstofn á einum degi í dag þar sem skattheimtan á hvort eð er ekki að taka gildi fyrr en um áramótin samkvæmt frumvarpinu.

Forseti. Í öðru lagi vil ég nefna þau lög sem vikið er til hliðar í 5. gr. frumvarpsins. Mögulega þurfa ákveðnir hlutar þessara laga að láta undan á neyðarstundu en við setjum spurningarmerki við nauðsyn þess að afnema níu lagabálka eins og þeir leggja sig. Í núgildandi lögum er ráðherra t.d. heimilt nú þegar að veita undanþágu frá umhverfismati þegar eini tilgangur framkvæmdarinnar er almannavarnaviðbragð. Þá er stór spurning hvort virkilega sé nauðsynlegt að taka stjórnsýslulögin öll úr sambandi, sér í lagi þau ákvæði sem snúa að rétti almennings til upplýsinga og að ráðafólk gæti að hæfi sínu við ákvarðanatöku. Ég hef áhyggjur af því að undanþágurnar skv. 5. gr. séu of víðtækar og ég hvet hv. allsherjar- og menntamálanefnd til að skoða hvort hægt sé að ramma þær betur inn þannig að almenn réttindi almennings og umhverfis geti átt samleið með rétti íbúa Suðurnesja til þeirrar grunnþjónustu sem framkvæmdunum er ætlað að standa vörð um. Í landi eins og Íslandi, þar sem náttúran getur gert okkur skráveifu á milljón ólíka vegu, þurfum við að eiga lagaramma sem stendur af sér neyðartímabil.

Að þessu sögðu, virðulegi forseti, vil ég ítreka það sem ég sagði hér í upphafi; Píratar styðja heils hugar að innviðir verði tryggðir fyrir verstu afleiðingum hugsanlegs eldgoss. Ég bind vonir við að allsherjar- og menntamálanefnd vinni vel úr málinu og nái utan um þessi sjónarmið þannig að Alþingi geti í lok dags skilað frá sér lögum sem virka vel fyrir öll.