154. löggjafarþing — 28. fundur,  13. nóv. 2023.

vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga.

485. mál
[13:13]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Virðulegi forseti. Um 3.700 manns hafa nú yfirgefið heimili sín í Grindavík og við okkur blasir náttúruvá af áður óþekktum skala á Reykjanesi á okkar líftíma. Ég vil byrja á því að lofa hugrekki og æðruleysi Grindvíkinga og senda þeim ásamt öllum viðbragðsaðilum allar mínar bestu kveðjur. Hugur okkar er hjá ykkur og við munum standa þétt við bakið á ykkur.

Jarðhræringar á undanförnum vikum hafa sannarlega gefið til kynna að mögulegt eldgos á Reykjanesskaga geti ógnað íbúum og mikilvægum innviðum. Við þurfum því nauðsynlega að grípa til aðgerða sem varið geta öryggi og almannahagsmuni. Undirbúningur hefur verið í gangi frá því að jarðhræringar hófust á skaganum. Mikil vinna fór í að rannsaka áhrif varnargarða, hanna þá og undirbúa aðgerðir ef til þeirra þyrfti að grípa. Sú ómetanlega vinna sem hefur farið fram á undanförnum þremur árum gefur til kynna að þeir kunna að vera til þess fallnir að verja mikilvæga innviði og líf fólks.

Þökk sé dugnaði og elju þeirra sem byggðu upp innviði okkar á Reykjanesi njótum við nú orku úr iðrum jarðar. Við fáum rafmagn og heitt vatn frá Svartsengi, orku sem okkur hefur tekist að beisla. Sú orka ógnar nú einnig innviðum. Við verðum að grípa til aðgerða. Burt séð frá því hvernig núverandi atburðir munu enda er það frumvarp sem við ræðum hér gríðarlega mikilvægt. Virknin á Reykjanesi er komin til að vera og við stöndum andspænis ógnum náttúrunnar. Það er ein af frumskyldum ríkisvaldsins að vernda mikilvæga innviði samfélagsins og aðra hagsmuni fyrir hugsanlegu tjóni af völdum náttúruvár og sambærilegra atburða. Þar af leiðandi ber okkur skylda til þess að grípa til nauðsynlegra forvarna. Forvarnagjald sem sett verður á með frumvarpi þessu mun renna í ríkissjóð og því er ætlað að standa undir kostnaði við fyrirbyggjandi framkvæmdir. Allur kostnaður vegna þeirra framkvæmda sem dómsmálaráðherra mun þurfa að ákveða að ganga í mun því greiðast úr ríkissjóði.

Virðulegi forseti. Það er vert að minnast á mikilvægi þess að hefja vinnu við nýjan náttúruvársjóð sem tekur í heild sinni til allra forvarna vegna náttúruvár hér á landi. Við höfum rætt um slíkan sjóð hér á Alþingi. Myndi hann skila því að við yrðum enn betur undirbúin undir hvers kyns náttúruvá.

Ég vænti þess að frumvarp þetta sem við ræðum hér í dag verði afgreitt í lok dags. Nú þegar hefur verið ákveðið að hefja vinnu við varnargarða en sú vinna veltur auðvitað á því að öryggi starfsmanna verði ekki ógnað. Sjálfur hef ég aldrei upplifað viðburði sem þá sem gengið hafa yfir okkur á undanförnum dögum á Suðurnesjum. En ég get ekki sett mig í spor vina minna í Grindavík. Ég vil því ítreka kveðjur mínar til þeirra og segja það að við munum standa með Grindvíkingum eins og við höfum staðið með samlöndum okkar í gegnum tíðina þegar náttúruvá skellur á. Lífið mun halda áfram og sama hvað á dynur tökumst við á við allar áskoranir saman.