154. löggjafarþing — 28. fundur,  13. nóv. 2023.

vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga.

485. mál
[13:29]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Óvissuástandið sem nú ríkir er Grindvíkingum nánast óbærilegt. Líkur eru til þess að fyrir höndum sé eitt stærsta samfélagslega verkefni sem þjóðin hefur tekist á við. Í slíkum aðstæðum er samtakamátturinn mikilvægur. Öll vonum við þó að upptök eldgoss verði á eins hagstæðum stað og mögulegt er. Enginn ræður við náttúruöflin, þau fara sínu fram og það er eðlilegt að fyllast vanmætti þegar yfirvofandi eru hamfarir sem gætu orðið meiri en við höfum áður upplifað. En það sem við getum gert er að vera til staðar fyrir þá sem á þurfa að halda og gæta að öryggi og velferð allra þeirra sem hafa þurft að yfirgefa heimili sitt. Það er eðlilegt að fólk hafi áhyggjur af starfi sínu og framtíð. Fólk veltir fyrir sér tjóni í vatns- og rafmagnsleysi og áhrifum svörtustu sviðsmyndarinnar á líf þess og upplifir allan tilfinningaskalann. Grindvíkingar þurfa stuðning og skilning. Fólki sem stendur veikt félagslega þarf að veita sérstakan gaum og innflytjendum sem ekki eiga bakland hér á landi sérstaklega. Húsnæðismál, skólamál, dagvistun, afþreying og sáluhjálp eru dæmi um verkefni sem við getum og eigum að halda vel utan um.

Sveitarstjórnarfólkið í Grindavík hefur verið í sambandi við önnur sveitarfélög sem eru boðin og búin til hjálpar. Stjórnvöld þurfa að nýta tímann vel í allar þær fyrirbyggjandi aðgerðir sem mögulegar eru, allt frá byggingu varnargarða líkt og við ræðum nú að hamfaratryggingum og hvernig við tryggjum afkomu fólks og heilsu. Við skulum nýta reynsluna af öðrum áföllum sem við höfum gengið í gegnum og aðgerðum sem gripið hefur verið til. Við skulum læra af því sem þar hefur gengið vel og einnig af því sem betur hefði mátt fara. Ég get nefnt gosið í Vestmannaeyjum og nýlegar aðgerðir eins og Covid-aðgerðirnar og viðbrögð við afleiðingum skriðufalla í Seyðisfirði. Gætum að fólki fyrst og fremst, velferð barna og þeirra sem eldri eru, í óvissu og aðstæðum sem enginn vill vera í.