154. löggjafarþing — 28. fundur,  13. nóv. 2023.

vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga.

485. mál
[13:34]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við höfum alltaf verið samofin náttúruöflunum og undir náð og miskunn móður náttúru. Það er verið að minna okkur hressilega á það þessa dagana og það þarf að gefa skýr skilaboð til samfélagsins og þeirra sem hafa þurft að yfirgefa heimili sín í mikilli óvissu um hvað framtíðin ber í skauti sér.

Hér er verið að veita ráðherra skýra lagaheimild til að taka ákvörðun um nauðsynlegar framkvæmdir í þágu almannavarna sem miða að því að koma í veg fyrir að mikilvægir innviðir og aðrir almannahagsmunir verði fyrir tjóni af völdum náttúruhamfara sem tengjast eldsumbrotum á Reykjanesskaga. Hér eru uppi sérstakrar aðstæður sem nauðsynlegt er að bregðast hratt og örugglega við. Gert er ráð fyrir að ráðherra verði heimilt að taka ákvörðun um tilgreindar framkvæmdir og hrinda þeim af stað án þess að önnur lög geti hugsanlega torvelt slíka ákvarðanatöku.

Við aðstæður eins og þær sem upp eru komnar þurfa ákvarðanir að vera fumlausar og upplýsingar til samfélagsins á Reykjanesi skýrar og aðgengilegar. Við erum að tryggja sveigjanlegra fyrirkomulag og að kostnaðurinn af fyrirbyggjandi framkvæmdum verði greiddur úr ríkissjóði. Við þurfum að hafa í huga í umræðunni að aðgát skal höfð í nærveru sálar, en íbúar í Grindavík hafa þurft að upplifa það að lifa í stöðugum ótta við harða jarðskjálfta með tilheyrandi álagi á andlega líðan og í ofanálag þurft að yfirgefa heimili sín á innan við 30 mínútum í algjörri óvissu um hvað framtíðin ber í skauti sér. Viðbragðsaðilar á svæðinu eru líka margir hverjir íbúar í Grindavík og álagið mjög mikið á þá á þessum tímum. Ég vil bara þakka viðbragðsaðilum fyrir sína ómetanlegu vinnu við þessar aðstæður. En verkefnið okkar er að fólkið finni fyrir því að kerfið sé til staðar þegar náttúran minnir svona hressilega á sig. Okkar verkefni er að tryggja að við byggjum slík kerfi upp sem gerir akkúrat það.

Hv. þingmenn. Um þessar mundir erum við öll Grindvíkingar og við virkjum hina sönnu íslensku samstöðu í þessu máli.