131. löggjafarþing — 28. fundur,  13. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[12:30]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér liggur fyrir Alþingi frumvarp sem við í stjórnarandstöðunni erum öll algerlega á móti. Með því er verið að banna verkfall með lögum og í grundvallaratriðum getum við ekki stutt lagasetningu af þessu tagi.

Hér erum við núna stödd við atkvæðagreiðslu í lok 2. umr. Fyrir liggja breytingartillögur sem sumar eru til bóta og við í stjórnarandstöðunni munum sitja hjá við afgreiðslu þeirra. Við munum hins vegar greiða atkvæði gegn hverju einasta efnisatriði í tillögugreinunum sjálfum sökum andstöðu okkar við frumvarpið.