132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Móttaka ferðamanna við Kárahnjúka.

101. mál
[12:55]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson) (S):

Virðulegi forseti. Það hefur oft komið upp, bæði hérlendis og erlendis, að ákvarðanatökur varðandi virkjunarframkvæmdir hafa verið mjög umdeildar meðan á byggingu stendur en síðan að loknum framkvæmdum hafa þessar virkjanir verið ótrúlegt aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Svo er enn fremur hér á landi í allri umræðunni um Kárahnjúkavirkjun.

Ég leyfi mér að leggja hér fram fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra um hvort ráðherra hafi, í samstarfi við Landsvirkjun, samgönguráðuneyti og ferðamálasamtök, hugað að því hvernig best verði staðið að móttöku ferðamanna við Kárahnjúkavirkjun eftir að framkvæmdum lýkur.

Eins og ég gat um áðan hafa virkjanir mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Til dæmis í Sviss og Bandaríkjunum hefur oftar en ekki verið unnið að því á virkjunartímanum að búa til aðstöðu fyrir ferðamenn, ýmist á stíflubökkunum sjálfum eða til hliðar og síðan eru reist þar sérstök þjónustuhús. Hefur þetta vakið athygli mína og fleiri á ferðalögum. Nú síðast t.d. hin fræga Hoover-stífla sem ég átti kost á að skoða.

Því tel ég að það væri mjög af hinu góða ef þeir aðilar sem vinna þarna að framkvæmdum stæðu saman og gerðu gott aðgengi fyrir ferðamenn þar sem fyrirsjáanlegt er að þegar fram líða stundir verður mikil ásókn ferðamanna í skoða þessa merkilegu virkjun.