133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

hlerun á símum alþingismanna.

230. mál
[15:11]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (F):

Virðulegi forseti. Fram kom á vormánuðum í erindi Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings á söguþingi Íslands að hann hefði fundið skriflegar heimildir fyrir því að símar voru hleraðir á vegum stjórnvalda í sex tilvikum. Fram kom hjá honum að dómsmálaráðuneytið hefði átta sinnum fengið heimildir til að hlera síma vegna sex aðskilinna tilvika. Þau tilvik voru frá árunum 1949–1968. Símar nokkurra alþingismanna voru hleraðir í öllum þessum tilvikum. 1949 voru þrjú númer alþingismanna hleruð. 1951 voru tvö tilvik, í fyrra tilvikinu voru símar hjá tveimur alþingismönnum hleraðir og síðar á árinu hjá fimm alþingismönnum. 1961 þegar landhelgissamningurinn við Breta var til umfjöllunar á Alþingi voru símar hleraðir hjá fjórum alþingismönnum. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér finnst það tilvik vera þess eðlis að ekki sé hægt að hafa um það önnur orð en pólitískar njósnir. 1963 var hleraður sími hjá einum alþingismanni og 1968 hjá tveimur. Mér finnst eðlilegt í framhaldi af þessu að krefja dómsmálaráðherra svara við því hversu oft ráðuneytið hefur beitt sér fyrir hlerunum og af hvaða tilefni hverju sinni og hef því lagt fram fyrirspurn á þskj. 233 þar sem spurt er:

1. Hafa símar alþingismanna verið hleraðir fyrir atbeina íslenskra stjórnvalda og ef svo er, hvenær og hjá hvaða alþingismönnum hverju sinni?

2. Hver var hverju sinni ástæða hlerunarinnar og hvenær tengdist hún rannsókn á sakamáli?

Ástæða þess að ég spyr á þann veg eru ítrekaðar yfirlýsingar dómsmálaráðherra í sölum Alþingis fyrr í haust, þegar rædd var munnleg skýrsla hans, þar sem hann rökstuddi hleranir með tilvísun í að sakamál hefði verið til rannsóknar í þeim tilvikum.

Mér finnst ástæða til þess, virðulegi forseti, að dómsmálaráðuneytið geri hreint fyrir sínum dyrum gagnvart Alþingi.