133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

fæðingarorlof.

323. mál
[18:53]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég endurtek þakkir til hv. þm. Björns Inga Hrafnssonar að taka þetta mál upp í fyrirspurn og ég þakka einnig öðrum þeim hv. þingmönnum sem tekið hafa þátt í umræðunni og sýnt málinu mikinn áhuga. Ég tek að sjálfsögðu undir það sem fram hefur komið, m.a. hjá fyrirspyrjanda að málið hefur vakið verðskuldaða athygli víða. Ég hef margoft orðið var við það í samtölum við kollega okkar frá öðrum löndum að málið vekur athygli og mikið er spurt út í það. Aðrar þjóðir horfa því til okkar í þessu efni.

Það er líka hárrétt að þetta hefur breytt mjög miklu í jafnréttismálum. Við sáum það t.d. í könnun sem var kynnt nýlega um launamun kynjanna. Eitt af þeim jákvæðum atriðum sem komu fram í niðurstöðunum var að talið var að tilkoma feðraorlofs hafi haft jákvæð áhrif til að draga úr launamun kynjanna. Það er mjög gott mál að sjálfsögðu. Hin mikla þátttaka feðra í feðraorlofi er líka mjög jákvæð og hefur vakið mikla athygli. Þetta mál er á allan hátt, held ég megi segja, mjög jákvætt og gott.

Ég vil einungis, virðulegi forseti, í lok umræðunnar endurtaka það sem ég sagði áðan í svari mínu, að núna eru í gangi rannsóknir á ýmsum þáttum varðandi fæðingarorlofið og fyrir nokkrum dögum setti ég af stað sérstaka rannsókn og skoðun á þeim athugasemdum og ábendingum sem fram hafa komið um framkvæmd laganna. Ég tel þetta allt saman mjög jákvætt og með því móti eigum við að fylgjast með framkvæmd laganna, ekki síst á þessu sviði og átta okkur á því hugsanlega hvað betur má fara o.s.frv. til að við náum þeim markmiðum sem stefnt er að með slíkri lagasetningu.