135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

meðferð sakamála.

233. mál
[20:59]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það má náttúrlega segja það um alla atburði sem gerast og kalla á ný viðhorf og nýjar umræður að það sé ákveðinn sigur fyrir þá sem hörmungum valda að menn fari að fjalla um ráðstafanir til að koma í veg fyrir að hörmungarnar verði aftur. En ég lít ekki þannig á. Ég lít þannig á að þetta ákveðna tilvik hafi leitt til þess að menn þurfi að gera ráðstafanir til þess að leikurinn endurtaki sig ekki. Það hefur verið sýnt fram á það með þessum árásum að menn eru tilbúnir til að grípa til slíkra ráða til að ná fram einhverjum óskilgreindum hagsmunum sem ég skil ekki. Það er með ólíkindum og þegar svo er vegið að þjóðum og saklausum borgurum þá er það skylda ríkisvaldsins að grípa til ráðstafana til að slíkt endurtaki sig ekki.

Mannkynssagan snýst að verulegu leyti um þetta. Eftir síðari heimsstyrjöldina ákváðu lýðræðisríkin að stofna Atlantshafsbandalagið og halda Sovétríkjunum í skefjum. Ég er viss um að hv. þingmaður telur að það hafi verið misráðið. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það var rétt og það skilaði árangri þannig að við getum farið yfir söguna og lagt dóm á gagnráðstafanir eftir að einhverjir ákveðnir atburðir gerast og síðan séð hver árangurinn er.

Við höfum ekki enn þá náð tökum á þessum málum, baráttunni við hryðjuverk. Við vitum að ráðstafanir sem eru gerðar í einstökum löndum til að halda þessum öflum í skefjum eru með ólíkindum. Þær koma við að sjálfsögðu — og ég er því sammála — koma inn á svið sem við viljum helst ekki þurfa að fara inn á til að gæta öryggis borgaranna. En við erum nauðbeygð til að gera það til að tryggja þetta öryggi og koma í veg fyrir að aðrir eins ofbeldismenn og réðust á Bandaríkin endurtaki leikinn.