136. löggjafarþing — 28. fundur,  17. nóv. 2008.

greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.

159. mál
[17:35]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Lítið fer fyrir því stefnumiði Frjálslynda flokksins, sem ég hélt að væri ljóst, að berjast gegn verðtryggingunni. Ég hélt að það væri stefna flokksins (Gripið fram í.) en það virðist því miður ekki vera stefna hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar.

Hv. þingmaður nefndi það að grípa þyrfti til aðgerða til að koma í veg fyrir nauðungarsölu heimila ofan af fólki. Hann nefndi þúsundir manna í því sambandi og gjaldþrot. Það er ekki vegna þess að það séu vanskilamenn í dag eða hafi verið. Ég held að hv. þingmaður sé mér alveg sammála um að þær aðstæður sem nú eru í samfélaginu munu gera menn að vanskilamönnum sem ekki hafa verið það hingað til. Á bls. 9 í greinargerðinni segir að það muni þýða 240 milljarða kr. minni tekjur fyrir banka og Íbúðalánasjóð frá heimilunum ef verðbólguskotið verður tekið af miðað við eitt ár. Þá spyr maður: Hver á að borga það?

Er einhver eignamyndun á bak við þetta? Er raunhæft að byggja eignamyndun á því verðbólguskoti sem ríkisstjórnin ætlar að fara í með fleytingu krónunnar? Verður einhver eignamyndun til í samfélaginu? Hún verður til ef heimilin verða látin borga þetta inn í bankana, inn í Íbúðalánasjóð, inn í lífeyrissjóðina, eins og ég sagði. Þessir aðilar hafa þegar — fyrir utan Íbúðalánasjóð að vísu — tapað gríðarlega miklum fjármunum nú þegar. Á hverju? Á hlutabréfabraski. Eiga þeir að raka því inn aftur frá húseigendum með þessari verðtryggingu? Ég vil skoða (Forseti hringir.) það mál miklu nánar.