138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

launabónusar -- Icesave -- umsókn að ESB.

[13:33]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Við Íslendingar höfum undanfarið ár gengið í gegnum miklar þrengingar og erfiðleika, efnahagslega, pólitískt, félagslega og siðferðilega. Um leið verðum við að vinna okkur út úr þeim vanda sem við blasir og móta nýja sýn á grundvelli annarra gilda en réðu för í aðdraganda hrunsins. Þjóðfundurinn sem haldinn var á laugardaginn lagði sannarlega grunn að þeirri framtíð sem við hljótum að vinna að. Heiðarleiki, réttlæti, jafnrétti og virðing eru gildin sem þar fengu mestan byr og eiga að vera í stafni í endurmótun samfélagsins.

Nú bregður svo við að fréttir berast af kröfum fyrrum stjórnenda Landsbankans upp á milljarða í þrotabú hans. Kröfurnar byggjast á launakerfi græðginnar frá 2007 og því firrta viðhorfi að starfsmenn geti fengið himinháar bónusgreiðslur þegar vel árar en beri síðan enga ábyrgð á fjárhagslegu hruni og sendi reikninginn fyrir því til þjóðarinnar.

Sama hugarfar virðist ríkjandi hjá olíufélagi nokkru hér í bæ þar sem stjórnendur ætla að taka út bónusgreiðslur í varúðarskyni af því að þeir reikna með að fyrirtækið lendi í vanda vegna skulda og þá fari nú 2007-bónusarnir fyrir lítið. Almenningur skal borga fyrir þetta sukk.

Frú forseti. Það er fullkomin veruleikafirring að láta hvarfla að sér að ganga fram með þessum hætti. Þetta eru hóparnir sem jafnframt nutu skattstefnu fyrrum ríkisstjórna þegar skattbyrði hátekjuhópa var lækkuð en hinna lægstlaunuðu hækkuð. Ég vona sannarlega að engum í þessum sal komi til hugar að sérstaklega þurfi að hlífa þessum hópum við að greiða sinn skerf til sameiginlegra útgjalda þegar skattamálin koma til umfjöllunar á næstunni. Ætli það sé ekki fremur svo að þjóðin eigi sitthvað inni hjá þeim sem hafa skammtað sér óhóflegar launagreiðslur og sendu svo hrunreikninginn á þjóðina?

Alþingi og ríkisstjórn verða nú að taka á þessum málum af fumleysi og festu. Ég kalla eftir skýrri og skjótri lagasetningu um launabónusa af þeirri gerð sem ég hef hér rætt. Það er óhjákvæmilegur þáttur í tiltektinni eftir hrunið, það er nauðsynlegt til að skapa frið og sátt í samfélaginu. Ég kalla enn fremur eftir því og hvet til samstöðu allra þingmanna allra flokka við það verk.