140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[19:09]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki farið í langar umræður við hæstv. fjármálaráðherra í einnar mínútu andsvari. Þess vegna var spurning mín einföld: Hvernig samræmist það norrænni velferð að á sama tíma og bætt er 80 millj. kr. núna, á milli áranna 2011 og 2012, við listamannalaun sem fara úr 409 milljónum í 489 milljónir á sama tíma og verið er að loka líknardeildum í landinu? Er þá hæstv. fjármálaráðherra að segja að það sé þá mikilvægara að auka við listamannalaunin en að hafa líknardeildirnar opnar?

Þess vegna er spurningin sú: Hvernig samræmist það norrænni velferð að vinna með þessum hætti? Þetta heitir forgangsröðun í fjármálum, í fjárlögum ríkisins. Og þegar hæstv. fjármálaráðherra vísar í eitthvert samkomulag vil ég minna hann á að eitt af fyrstu verkum þessarar velferðarstjórnar var að grípa inn í og skerða kjör ellilífeyrisþega og öryrkja, það var þannig. Þess vegna er spurningin þessi: Hvernig samræmist það norrænni velferðarstjórn að gera þetta?