142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

túlkaþjónusta fyrir heyrnarlausa.

[15:31]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hér var ekki um neina sakbendingu að ræða. Hér var verið að útskýra tildrög málsins, hvers vegna staða sjóðsins væri sú sem hún er, þ.e. það var kynnt í fyrrverandi ríkisstjórn að það ætti að hækka gjaldskrána um 45%. Það var síðan samþykkt af fyrrverandi ráðherra án þess að fjármunir væru veittir til þessa máls. Ég er að gera athugasemd við það.

Virðulegi forseti. Vegna þess að þetta er alvarlegt mál mun ég hafa samband við formann þeirrar nefndar sem sett var á laggirnar til að meta þau úrræði sem þyrfti að grípa til á grundvelli þeirrar skýrslu sem nú liggur fyrir um stöðu þessa málaflokks og ætlað var að mundi skila tillögu til okkar einhvern tíma undir áramótin. Ég mun hafa sambandi við formanninn og fara fram á það að reynt verði að flýta sem mögulegt er vinnu nefndarinnar þannig að við getum brugðist heildstætt við þessu. Ég mun jafnframt funda með velferðarráðherra um þetta mál af því að ég er alveg klár á því, virðulegi forseti, að þetta er ófremdarástand. Enn og aftur eru tildrög málsins samt þau að það var ákveðið að hækka gjaldskrána um 45%, ákveðið að hafa sömu þjónustu 45% dýrari án þess að (Forseti hringir.) setja í það aukna fjármuni. Það er það sem ég átel, virðulegi forseti.