145. löggjafarþing — 28. fundur,  4. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[15:51]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Okkur finnst það of í lagt í einbeittri viðleitni ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að semja við erlenda kröfuhafa, öðru nafni hrægammasjóða, og hleypa þeim fyrstum og einum, a.m.k. í bili, út úr gjaldeyrishöftum með verulegum afslætti miðað við að þeir hefðu greitt skatt, að fella líka niður skattskyldu afdráttarskatts á skuldabréf sem þeir kunna að gefa út tengt þessu máli. Það að ívilna kröfuhöfum enn frekar með því að fara að hræra í íslenskum skattarétti í þessum efnum er mjög langt gengið, það er mikil lipurð við kröfuhafana. Menn leggja sig í framkróka við að koma til móts við óskir þeirra, sumir hverjir, þannig að við munum greiða atkvæði gegn þessu ákvæði.