146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

reglur um atvinnuleysisbætur.

[11:31]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. félagsmálaráðherra sem jafnframt er ráðherra vinnumarkaðsmála. Við höfum búið við langt sjómannaverkfall og það hefur haft gífurleg áhrif á sjómenn og fyrirtæki og sérstaklega minni útgerðir og fiskvinnslur. Einnig hefur það haft mikil áhrif á stöðu fiskverkafólks í landinu. Fiskverkafólk er á atvinnuleysisbótum, um 1.300 manns eru á bótum. Um 300 manns hafa ekki komist á bætur, flutt úr landi eða eiga ekki rétt á bótum. Fiskverkafólk er mjög illa varið gagnvart sjómannaverkföllum. Þótt það styðji sjómenn í kjarabaráttu þeirra er óásættanlegt að þurfa að búa við það óöryggi að vera sagt upp fyrirvaralaust og vera sett á atvinnuleysisbætur með tilheyrandi kjaraskerðingu. Ég held að þetta atvinnuóöryggi sé alveg einstakt á vinnumarkaðnum og það verði að styrkja rétt þessa fólks. Eftir hrun var atvinnuleysisbótatímabilið lengt í fjögur ár en síðasta ríkisstjórn stytti tímabilið í tvö og hálft ár. Mikil andstaða var gagnvart því hjá verkalýðshreyfingunni. Í ljós hefur komið að dregið hefur mikið í sundur með atvinnuleysisbótum og kauptryggingu frá árinu 1999.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra vinnumarkaðsmála: Mun hann beita sér fyrir því að lengja atvinnuleysisbótatímabilið úr tveimur og hálfu ári í þrjú ár? Mun hann beita sér fyrir því að styrkja uppsagnarákvæði fiskverkafólks? Mun hann beita sér fyrir því að hækka atvinnuleysisbætur svo þær haldi í við kaupmáttarþróun lágmarkstekna í landinu? Mun hæstv. félagsmálaráðherra styðja að fæðispeningar sjómanna verði gerðir skattfrjálsir? En slíkt mál gæti leyst þann hnút sem er í sjómannaverkfallinu. Það mál liggur fyrir þinginu og ég er 1. flutningsmaður að því.