146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

farþegaflutningar og farmflutningar.

128. mál
[12:06]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Auðvitað er þetta 1. umr. og ég viðurkenni að ég er ekki búin að lúslesa frumvarpið. Ég velti því samt fyrir mér, af því að hér er talað um leiðakerfi, hvaða áhrif frumvarpið, verði það að lögum, muni hafa á skipulag almenningssamgangna í landshlutunum. Þau ákvæði í lögum hafa valdið vandræðum um að hægt væri að kippa út úr kerfunum leiðum sem bera sig og eftir standa þá leiðir sem bera sig ekki. Sveitarfélögin hafa þá þurft að draga úr þjónustu við almenning.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Kemur þessi breyting og það að talað sé um leiðakerfi þá í veg fyrir þetta? Mun það þegar til framkvæmda kemur leiða til bóta fyrir landshlutana? Verður hægt að þétta þjónustuna og halda úti ferðum sem bera sig ekki vegna þess að það eru aðrar leiðir sem bera sig? Ég vona að það sé rétt. Ég spyr hæstv. ráðherra út í þetta vegna þess að t.d. í þeim landshluta þar sem ég bý hefur þetta valdið vandræðum. Það eru auðvitað fleiri leiðir úti um land sem bera sig, sem sveitarfélög og landshlutar hafa áhyggjur af að ætti að taka út úr kerfunum.