146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

almenn hegningarlög.

101. mál
[13:32]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum, um móðgun við erlenda þjóðhöfðingja.

Flutningsmenn frumvarpsins ásamt mér eru hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Ari Trausti Guðmundsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Orri Páll Jóhannsson.

Þetta frumvarp er hvorki stórt né mikið að vöxtum. Í 1. gr. þess segir einfaldlega: „95. gr. laganna fellur brott.“

Í 2. gr. frumvarpsins segir: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Ég ætla að nota ræðutíma minn hér í dag til þess að fjalla um þessa 95. gr. sem ég og meðflutningsmenn mínir viljum fella út úr lögunum.

Þetta frumvarp var lagt fram á 145. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Það er hér endurflutt með breyttri og ítarlegri greinargerð.

Áður en lengra er haldið vil ég segja það að áður hafa verið lögð fram mál á Alþingi sem tengjast þessari lagagrein. Á 120. löggjafarþingi, þ.e. þingveturinn 1995–1996, lögðu þáverandi hv. þingmenn Svavar Gestsson, Steingrímur J. Sigfússon og Bryndís Hlöðversdóttir fram frumvarp þar sem lagt var til að orðin „æðsta ráðamann, þjóðhöfðingja þess“ í 1. mgr. 95. gr. yrðu felld brott. Tildrög þess frumvarps voru að ritstjóri íslensks blaðs hafði skrifað pistilinn „Forseti Rússlands er róni“. Í kjölfarið gerði utanríkisráðuneytið athugasemd við skrifin. Það frumvarp hlaut ekki afgreiðslu hér á þingi. Á 143. og 144. löggjafarþingi lagði hv. fyrrverandi þingmaður Helgi Hrafn Gunnarsson ásamt fleirum fram frumvarp um afnám fangelsisrefsinga fyrir tjáningu skoðana. Það frumvarp tók til 95. gr. almennra hegningarlaga ásamt ýmsum fleiri greinum þeirra. Það frumvarp hlaut ekki heldur brautargengi hér á Alþingi.

Í frumvarpinu sem ég mæli hér fyrir er hins vegar gengið lengra en í báðum þessum fyrrnefndu frumvörpum og einfaldlega lagt til að 95. gr. almennra hegningarlaga sem fjalla um móðgun við erlenda þjóðhöfðingja verði fellt niður í heild sinni.

Á undanförnum misserum hefur talsvert verið þrengt að tjáningarfrelsi víða um heim. Frelsi blaðamanna hefur verið skert og stjórnvöld í einstökum ríkjum hafa reynt að uppræta gagnrýnar umræður, og þetta hefur gerst jafnvel yfir landamæri. Má í því samhengi nefna nýlegt mál, frá því í fyrra, þar sem þýsk stjórnvöld létu undan þrýstingi Tyrklandsstjórnar og heimiluðu málaferli gegn skemmtikrafti sem farið hafði óvirðulegum orðum um Erdogan, forseta Tyrklands. Þessi ákvörðun er almennt talin hafa verið mikill álitshnekkir fyrir þýsku ríkisstjórnina og ótíðindi fyrir tjáningarfrelsið.

Ákvörðun þýsku stjórnarinnar byggðist á lögum sem gilda þar í landi og fela í sér refsingar við því að smána erlenda þjóðhöfðingja eða ríki. Í kjölfarið spratt upp umræða í ýmsum Evrópulöndum um réttmæti slíkra laga. Um þessar mundir er unnið að úttekt á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, í samvinnu við International Press Institute í Vínarborg, á löggjöf um sérvernd erlendra þjóðhöfðingja. Mér er þetta kunnugt því að ég hef verið í sambandi við fulltrúa þessara samtaka sem fylgjast af miklum áhuga með framvindu þessa máls hér á Íslandi.

Árið 2002 gerðist það að Mannréttindadómstóll Evrópu felldi dóm í máli franska dagblaðsins Le Monde, þar sem úrskurðað var að sérstök vernd þjóðhöfðingja væri ónauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi. Í framhaldi af dómnum lýstu íslenskir lögspekingar efasemdum um að unnt væri að dæma eftir 95. gr. hegningarlaga í ljósi 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Frú forseti. 95. gr. almennra hegningarlaga felur í sér afar hörð viðurlög við því að smána erlend ríki, þjóðhöfðingja eða þjóðartákn á borð við fána. Þá er tiltekið að óheimilt sé að ráðast gegn sendierindrekum með ofbeldi eða valda eignaspjöllum á sendiráðum eða lóðum þeirra. Lagaákvæðum sem standa vörð um sóma erlendra þjóðhöfðingja hefur sjaldan verið beitt hér á landi og enn sjaldnar hafa fallið dómar á grunni þeirra. Þau fáu tilvik sem eru til hafa þó síst verið landi og þjóð til sóma. Þannig hlaut rithöfundurinn Þórbergur Þórðarson dóm fyrir að kalla Adolf Hitler blóðhund og skáldið Steinn Steinarr fyrir að smána hakakrossfána þýska nasistaflokksins. Ég held að óhætt sé að segja að sagan hafi farið fremur mjúkum höndum um þessi afbrot.

Ég vil taka það fram svo ekki gæti neins misskilnings um það að almennu hegningarlögin eru yngri en þessi dæmi, en þarna var sem sagt dæmt eftir sambærilegum ákvæðum en ekki nákvæmlega eftir þessu orðalagi.

Viðvíkjandi seinni hluta 95. gr., sem snýr sérstaklega að eignaspjöllum á sendiráðum, er um að ræða klausu sem bætt var við lögin árið 2002. Þann sama vetur höfðu þrír ungir menn verið kærðir og hlutu síðar dóm á grundvelli 95. gr. hegningarlaga fyrir að hafa kastað bensínsprengju að bandaríska sendiráðinu. Sú ákvörðun að kæra verknaðinn á grunni ákvæðisins um móðgun í garð erlendra ríkja og þjóðhöfðingja varð umdeild og er erfitt að skilja lagabreytinguna frá 2002 nema sem tilraun til að verja þá ákvörðun eftir á. Þessi hluti lagagreinarinnar er að mati þeirrar sem hér stendur með öllu óþarfur, líkt og fyrri hluti hennar, enda eru önnur ákvæði í lögum sem taka á skemmdarverkum eða íkveikjum eða íkveikjutilraunum.

Þetta frumvarp hefur vakið öllu meiri athygli nú en þegar það var lagt fram fyrir ári síðan. Ástæða þess er vafalítið innsetning Donalds Trumps sem Bandaríkjaforseta, en forsetinn hefur verið gagnrýndur harðlega í ræðu og riti. Á sama hátt hefur stjórn hans brugðist mjög illa við þeirri gagnrýni sem sett hefur verið fram á hann.

Það er trú mín að nú sé von til þess að góð samstaða geti náðst um þetta mál hér á Alþingi.

Ég vil því leggja það til að málinu verði að lokinni umræðu hér í dag vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.