146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

almenn hegningarlög.

101. mál
[14:44]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hljóðs aðallega til að þakka hv. þingmanni fánastundina hér í ræðustól. Mér flaug í hug, af því að hann nefndi sérstaklega fána Evrópuráðsins, dæmi af einum forvera okkar í þingsal, þáverandi hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, sem um tíma var þingmaður míns flokks en leiddist síðan af leið og endaði hjá Framsóknarflokknum. (Gripið fram í: Fór fyrir björg.) Fór fyrir björg, blessaður hv. kallinn. Hann var jafnframt formaður Heimssýnar um tíma. Heimssýn stóð fyrir markaðsátaki. Og nú sýni ég mynd af fána. Þetta er límmiði sem Heimssýn gaf út eitt sumarið þar sem er búið að prenta fána Evrópusambandsins, myndi ég halda að þau vilji halda fram, með rauðu striki yfir: ESB – nei takk. Þetta var selt bændum landsins til að líma á heyrúllur. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þm. Viktor Orri Valgarðsson sé í rauninni að feta í fótspor Ásmundar Einars Daðasonar, fyrrverandi hv. þingmanns, í sinni borgaralegu óhlýðni að smána fána Evrópuráðsins á almannavettvangi. Það verður náttúrlega hver að dæma hversu góður sá félagsskapur er, en breytinguna á almennum hegningarlögum styð ég.