150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

meðferð einkamála.

100. mál
[18:15]
Horfa

Flm. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Stundum er sagt að margt smátt geri eitt stórt. Píratar hafa ekki einungis lagt fram þetta mál til að bregðast við þessari stöðu heldur hef ég einnig, bara fyrir mjög stuttu síðan, mælt fyrir öðru máli þar sem lagt er til að dómstólar þurfi að rökstyðja þegar þeir taka ákvörðun um hver eigi að borga málskostnað. Vegna þess að það er eitt sem fjölmiðlar og þeir sem tjá sig á opinberum vettvangi hafa heldur betur fengið að finna fyrir, þeir vinna jafnvel meiðyrðamál fyrir dómi á grundvelli tjáningarfrelsisins en sitja svo uppi með verulegan málskostnað þrátt fyrir það að meginreglan í svona dómsmálum sé sú að sá sem vinni mál í öll um meginatriðum eigi ekki að borga málskostnað. Við leggjum til að það þurfi að rökstyðja sérstaklega ef á að víkja af þeirri meginreglu og það er einn hluti af þessu.

Það sem við gerðum líka eftir að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu setti lögbann á fjölmiðil tveimur vikum fyrir kosningar var að leggja fram frumvarp sem tók það úr höndum sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu að taka ákvarðanir um mál sem hann skilur greinilega ekki og færðum það í hendur dómstóla. Það naut því miður ekki stuðnings á þessu þingi og því miður setti ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, og þá sér í lagi hæstv. forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttur, það ekki í forgang að breyta þessari stöðu þegar hún skipaði sérstakan hóp um vernd tjáningarfrelsisins heldur var það sett á seinni fasa verkefnisins, breyting sem mér fannst þó liggja töluvert mikið á. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að af ýmsu er að taka. Þetta mál er bara lítið skref af mörgum sem þarf að stíga til að efla vernd tjáningarfrelsisins á Íslandi. En Píratar stóðu fyrir IMMI. Við höfum staðið fyrir mörgum tjáningarfrelsismálum hingað til og ég held að okkur sé treystandi til að halda þeim áfram á lofti.