151. löggjafarþing — 28. fundur,  27. nóv. 2020.

kjaramál flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands.

351. mál
[20:27]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka þingmönnum fyrir að hafa brugðist svona hratt og vel við frumvarpinu og hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir vinnu hennar í dag. Það er ljóst að staðan var orðin grafalvarleg, en með afgreiðslu þessa frumvarps liggur nú fyrir að flugvirkjar munu koma strax aftur til starfa og flugrekstur Landhelgisgæslunnar mun því smám saman komast í eðlilegan rekstur og björgunarþyrlur verða vonandi til taks í síðasta lagi á sunnudag.

Ekki var gripið til þessarar lagasetningar fyrr en fullreynt var í gær og ljóst að samningar næðust ekki. Það var hin eðlilega nálgun því að við viljum að sjálfsögðu öll fyrst reyna að ná samningum í viðræðum aðila og með milligöngu ríkissáttasemjara ef ekki vill betur til. Lögð var fram málamiðlunartillaga frá ríkissáttasemjara sem ekki var samþykkt. Þegar það lá fyrir var brýnt að leggja frumvarp fyrir þingið og það hefur gerst hratt. Vinna dómsmálaráðuneytisins hefur verið afar hröð. Mig langar að þakka starfsmönnum þar fyrir að hafa brugðist vel við. Frumvarpið gat því komið fram strax í dag fyrst samningar kláruðust ekki í gær. Einnig vil ég þakka þeim fyrir að bregðast skjótt við við að undirbúa frumvarp um breytingar á lögum um Landhelgisgæsluna, þannig að ég neita því að sjálfsögðu að verkstjórn í dómsmálaráðuneytinu til að bregðast við þessari stöðu sé ábótavant. Það stendur ekki aðeins upp á ríkisvaldið að gefa eftir í svona samningum heldur verða fulltrúar starfsstétta, sem hafa haft sterka samningsstöðu þar sem flugrekstur Gæslunnar liggur undir, að vera sveigjanlegir. Það verða allir að gera og það verða allir að sýna ábyrgð. Það geri ég með þessu frumvarpi.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar, virðulegur forseti, en ég ítreka þakkir mínar til þingsins, fyrir hafa brugðist svo skjótt við.