152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

afgreiðsla ríkisborgararéttar.

[10:41]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég vildi bæta við það sem ég kom inn á hér áðan sem ég náði ekki alveg að klára sökum þess hversu knappur tími er gefinn. Það er ekki bara stjórnarandstaðan sem gagnrýnir það hvernig hæstv. ráðherra heldur á þessum málum, það gera líka stjórnarþingmenn. Nefndin hefur verið einhuga um það að til lengri tíma þurfi að skoða breytt verklag á því hvernig þingið kemur að veitingu ríkisborgararéttar. En til skemmri tíma hefur upplýsingagjöf frá ráðherra í gegnum embættismenn verið á þá leið að þetta yrði óbreytt að þessu sinni og síðan myndum við skoða ferlið til lengri tíma. Þessu tvennu má ekki rugla saman og mér finnst að hæstv. ráðherra eigi ekki að setja embættismenn ráðuneytisins eða stofnanir ráðuneytisins í þá stöðu að vera að kasta röngum boltum inn til þingnefnda þegar afstaða ráðherrans sjálfs er allt önnur.