152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

afgreiðsla ríkisborgararéttar.

[10:43]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Forseti. Ég tek að sjálfsögðu undir það sem aðrir hv. þingmenn hafa sagt hér á undan. Mig langar hins vegar að benda á eina stóra óvirðingu sem hæstv. innanríkisráðherra setur fram í niðurlagi greinar sinnar. Þar talar hann um að við höfum verið að nota umræður um fundarstjórn forseta til að kvarta yfir starfsháttum ráðherra og stofnana hans. Hann segir, með leyfi forseta:

„Í þessum ranga málflutningi á röngum tíma varð þeim flestum tíðrætt um virðingu Alþingis.“

Mig langar að benda hæstv. ráðherra á að hann hefur ekki verið hér í óundirbúnum fyrirspurnatíma frá því fyrir áramót og því ekki gefið kost á því að við gagnrýnum þetta á neinum öðrum stað í dagskránni en undir fundarstjórn forseta. Ég held að hæstv. ráðherra ætti að skoða sitt eigið tún þegar kemur að því að sýna Alþingi virðingu.