152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[12:20]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í síðari umræðu um þetta mál heyrði ég því fleygt að ekki hefði verið gagnrýnd efnisleg niðurstaða uppskiptingar ráðuneytanna. Ég vil bara halda því til haga að það hefur jú verið gagnrýnt, t.d. hefur það að slíta fjarskipti frá öðrum innviðum ítrekað verið gagnrýnt. Þessi tillaga er stundum klædd í þann búning að hér sé verið að bregðast við þeim stóru samfélagslegu áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í dag, t.d. með því að færa orkumálin inn í loftslagsráðuneyti. Það er líka gagnrýnivert. Það er eitthvað sem Kárahnjúkaflokkana í ríkisstjórn hefur jú dreymt um síðustu 20 árin, að geta haft þessi mál á einni hendi. En ef við værum að takast á við loftslagsmálin sem þá áskorun sem þau eru, af hverju ekki að færa efnahagsmálin undir ráðuneyti loftslagsmála? Þar myndi verkefnið snúast um umskipti samfélagsins. Af hverju ekki að taka nýsköpunina undir loftslagsráðuneyti? (Forseti hringir.) Þar eru sóknarfærin fyrir samfélagið á næstu áratugum. (Forseti hringir.) Nei, í staðinn er þetta gamaldags og kostnaðarsamur stólaleikur til þess eins að koma steypukassa utan um nýjan ráðherra Framsóknarflokksins.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir enn og aftur á takmarkaðan ræðutíma sem er ein mínúta þegar hv. þingmenn gera athugasemd við atkvæðagreiðslu.)