152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[12:34]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér kemur hver fulltrúinn á fætur öðrum frá stjórnarandstöðunni og lýsir því yfir að hann sé ekki á móti þessu en þeir tala allt niður og leggja fram frávísunartillögur og ég veit ekki hvað og hvað. Það kemur auðvitað ekki á óvart að hin svokallaða frjálslynda miðja sé á móti þessu og tali svona í kross. Staðreyndin er að fyrir tíu árum var búið til stjórnkerfi fyrir flokka og fyrir landið til að ganga í Evrópusambandið og það kemur heldur ekki á óvart að þessir sömu flokkar séu að verja það kerfi. (Gripið fram í.) Það sem kemur á óvart er að Miðflokkurinn skuli vera kominn á þann veg. Hér er talað um fjármuni og það er mikilvægt að fara vel með þá og ég tek undir það. Hér er hins vegar um fjárfestingu að ræða, fjárfestingu í betra samfélagi til að takast á við þær miklu breytingar sem hafa orðið frá því að sumir flokkar ætluðu að ganga í Evrópusambandið fyrir tíu árum. Við ætlum ekki að gera það. [Frammíköll í þingsal.]

(Forseti (BÁ): Forseti biður hv. þingmenn um að gefa ræðumanni frið til þess að ljúka máli sínu og standa ekki í samtölum úr sætum.)