152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[12:46]
Horfa

ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil segja að stjórnarandstaðan er ansi svekkt í dag og bara dálítið fúl líka. Mig langar aðeins að fara yfir nokkur atriði sem ég tel að skipti máli. Það eru auðvitað mikil tækifæri í þessari stöðu. Í fyrsta sinn er verið að setja á laggirnar sérstakt menningarmálaráðuneyti, sem hefur verið kallað eftir í einhverja áratugi. Ég heyri ekki neina hér í salnum sem eru í stjórnarandstöðu koma og fagna því og hafa samt sem áður kallað eftir þessu í langan tíma. Það ráðuneyti sem nú er sett á laggirnar, menningar- og viðskiptaráðuneyti, er það ráðuneyti sem mun skapa mestar gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið í gegnum ferðaþjónustu og skapandi greinar. Ég fagna því verulega að við séum að fara í þessar breytingar og verð að segja eins og er að mér finnst með ólíkindum hvernig sumir í stjórnarandstöðunni setja þetta upp og tala um forgangsröðun. Sú gagnrýni er beinlínis ósmekkleg því að það hefur engin ríkisstjórn fjárfest jafn mikið í börnum og í þeim sem verst hafa það í samfélaginu og þessi ríkisstjórn. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)