152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[12:50]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég viðurkenni að ég stóðst ekki mátið að biðja um orðið þegar talsmenn stjórnarandstöðu fóru að vitna í forseta þingsins, hv. þm. Birgi Ármannsson, og ræður hans frá árinu 2011. Það er auðvitað áhugavert að sjá íhaldsmenn allra flokka sameinast hér í málflutningi gegn þessum breytingum sem snúast ekki um neitt annað en að nýta þann sveigjanleika sem felst í lögum um Stjórnarráðið, straumlínulaga Stjórnarráðið, skapa samlegð með breytingum þannig að málaflokkar sameinist í nýjum ráðuneytum en leggja um leið áherslu á aukna samhæfingu og samstarf ráðuneyta. Ég þekki það ágætlega, hafandi verið bæði fagráðherra og forsætisráðherra, hversu miklu skiptir að ráðuneyti geti unnið vel saman og sömuleiðis hversu miklu skiptir að geta gert breytingar og fært hluti til til að skapa aukinn kraft og aukna orku í þessari mikilvægu stofnun. Ég verð því að segja (Forseti hringir.) að ég hef dálítið gaman af að sjá þessa sameiningu íhaldsafla. Ég ætla ekki að stilla mér upp með íhaldsöflunum í dag. (Forseti hringir.) Ég styð þessa tillögu því hún er góð. Hún snýst um framþróun og hún snýst um að þora að gera breytingar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)(BLG: Stjórnarskrá!)(Forsrh.: Það stendur ekki á mér.)

(Forseti (BÁ): Forseti biður hv. þingmenn og hæstv. ráðherra um að halda ekki áfram samtölum úr sætum sínum heldur gefa þeim orðið sem forseti hleypir í ræðustól hverju sinni.)