152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[12:55]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég ætli að gangast við því að hafa árum saman talað fyrir sérstöku menningarmálaráðuneyti, ráðuneyti skapandi greina. Ég get ekki annað en þakkað fyrir að það skuli vera orðið til með þeim hætti að það sem áður var lítil skúffa, 10% skúffa, í risastóru skólamálaráðuneyti hefur nú verið fært til þess vegar sem Bandalag íslenskra listamanna og gjörvallur geirinn hefur beðið um um árabil. Ég segi takk.

Ég ætla okkur það, þá helst í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarinnar frá 2017, að við stefnum að bættum samskiptum á Alþingi og þá allra flokka á þingi. Við vitum það öll hér að þessu verður ekki breytt. Við skulum fagna því að við séum ekki lengur með ráðherra sem hægt er að spyrða við stórt sjávarútvegsfyrirtæki og við erum með ráðherra núna í ferðamálum sem er að tala um bisness og framtíð (Forseti hringir.) þannig að ég ætla að fá að vera þakklátur og ég treysti því að þetta verði til góðs (Forseti hringir.) og við skulum ekki dvelja mikið lengur við það sem ekki verður breytt. 12 ráðherra ríkisstjórn. Það er heilög tala.