152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[12:59]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér steig hæstv. forsætisráðherra í ræðustól og sagðist hafa gaman af ýmsu því sem hér hefur komið fram. Ég hef líka skemmt mér yfir þessari umræðu. Eitt sem mér finnst svolítið skemmtilegt er að ráðherrar flokksins sem alla jafna rekur kosningabaráttu t.d. með yfirlýsingum um báknið burt koma núna allt í einu hingað upp í pontu og tala um það sem nauðsynlegt fyrir atvinnulífið að fjölga millistjórnendum hjá hinu opinbera, fjölga ráðherrum hjá hinu opinbera og fjölga skrifstofum. Þetta er svolítið kómískt allt saman. Annað sem kannski stingur svolítið er að hér er talað um stórkostlegt menningarmálaráðuneyti, nýtt og flott ráðuneyti sem á þá væntanlega að geta gripið til aðgerða á sviði menningar með skilvirkum hætti. En það hefur ekki komið eitt einasta þingmál frá þessu ráðuneyti (Forseti hringir.) frá því að ríkisstjórnin var skipuð og sviðslistafólk er í neyð (Forseti hringir.) vegna sóttvarnatakmarkana og annarra þátta.