152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

starf Seðlabanka Íslands eftir gildistöku laga nr. 92/2019.

162. mál
[13:52]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er auðvitað ákveðin skörun milli fjármálaeftirlitsnefndar og fjármálastöðugleikanefndar. Ég nefndi peningastefnunefndina og fjármálastöðugleikanefndina hérna áðan, en skörunin milli fjármálaeftirlitsnefndar um fjármálastöðugleikanefndar er sú að það er algjör forsenda þess að við tryggjum fjármálastöðugleika að Fjármálaeftirlitið sé skilvirkt og sinni því mikilvæga hlutverki sem því er falið. Ég tel þar af leiðandi, og eins og bent er á í skýrslunni, að sú samlegð sem fæst með sameiningunni skili sér tvímælalaust í þessum markmiðum. En það sem bent er á, sem hv. þingmaður kemur hér að, er í raun og veru mikilvægasta ábendingin í skýrslunni sem varðar það að hún er eðlisólík vegna þess að hún fæst við þessi einstöku mál sem að hluta ættu hugsanlega, sem bent er á af úttektarnefndinni, bara að tilheyra hefðbundinni stjórnsýslu og ekki vera í höndum sérstakrar nefndar sem sé í hinu núverandi fyrirkomulagi með mjög víðtækt starfssvið. Og vegna þess hve starfssvið hennar er víðtækt fari fram svo víðtækt framsal þannig að það sé skýrara að þessi verkefni eigi heima í hefðbundinni stjórnsýslu. Eins og nefndin bendir á að kæmi til greina væru þá eingöngu ákvarðanir um refsikennd viðurlög, íþyngjandi stjórnsýsluákvarðanir teknar á vettvangi nefndarinnar.

Þetta er bara mjög gild ábending og útskýrir að sumu leyti hið ólíka eðli þessarar nefndar og hinna nefndanna tveggja. En um leið megum við ekki glata þeirri samlegð sem fæst með því að hafa fjármálastöðugleika og fjármálaeftirlit undir sama hatti, það er auðvitað mikil samlegð í því. En að sjálfsögðu getum við skoðað þetta. Ég mun leggja á það áherslu, eins og kom fram, að vandað verði til verka, því að það er gríðarlega mikilvægt að þetta sé gert með eins vönduðum hætti og hægt er. (Forseti hringir.) Við erum þegar farin að rýna þetta með tilliti til hugsanlegra lagabreytinga. En vegna þess að það er von (Forseti hringir.) á þessari ytri úttekt í lok árs kann að vera skynsamlegt að bíða hennar þar til frumvarpið er lagt fram.