152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

skattar og gjöld.

211. mál
[15:21]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir þessar vangaveltur og spurningar sem hann var að velta fyrir sér. Það er rétt sem kom fram í máli hans að hér er aðallega um leiðréttingarfrumvarp að ræða. Ég taldi mig hafa komið því mjög skilmerkilega til skila í þinginu á mánudaginn í síðustu viku, þegar hér var til umræðu frumvarp um frestun opinberra gjalda, að okkur þætti öllum að bragurinn á því hefði mátt vera annar, við hefðum viljað vinna þetta í betra rými með betri tíma. Ég hugsa að hv. þingmaður muni það jafn vel og ég að hér þurfti að fresta þingfundi langt fram á kvöld, en verkefni þess dags var mikilvægt. Það var gjalddagi opinberra gjalda og það lá fyrir að við þyrftum að senda björgunarlínu hér út til fyrirtækja og rekstraraðila í ferðaþjónustu.

Hv. þingmaður talar um umhverfissóðaafslátt. Ég get alls ekki tekið undir það. Eins og hann rakti mjög vel þá hafa verið í gangi tvær aðferðir eða tveir staðlar til að reikna mengun. Húsbílar hafa sjálfkrafa lent í hámarksvörugjaldaflokki. Og eins og hér kom fram á þetta mál (Forseti hringir.) sér orðið tveggja ára sögu og er lagt til að þetta verði framlengt um ár. Ég vil minna á það (Forseti hringir.) að þetta var gert að beiðni bílaleiga sem eru með húsbíla og er nauðsynleg aðgerð fyrir ferðaþjónustuna.